Brynjar Þór kveður lið Tindastóls

Feyki barst rétt í þessu fréttatilkynning frá stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls þar sem fram kemur að stórskyttan Brynjar Þór Björnsson hafi óskað eftir að fá sig lausan af samningi við KKD Tindastóls af persónulegum ástæðum. Brynjar söðlaði um síðasta sumar og skipti úr meistaraliði KR yfir í Síkið til Maltbikarmeistara Tindastóls.

Hér að neðan má lesa tilkynninguna frá Stólunum:

„Brynjar Þór Björnsson hefur óskað eftir að fá sig lausan af samning við KKD Tindastóls af persónulegum ástæðum. Brynjar kom til liðs við Tindastól fyrir tímabilið og var einn af lykilmönnum liðsins með 15,4 stig að meðaltali í leik, 3,1 fráköst og 3,2 stoðsendingar. Eins og kunnugt er setti Brynjar Íslandsmet í fjölda þriggja stiga karfa í einum leik er Tindastóll spilaði gegn Breiðablik. Brynjar er mikill leiðtogi innan sem utan vallar og verður miður að sjá hann ekki  klæðast treyju Tindastóls á næstu leiktíð.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Tindastóls vil þakka Brynjari fyrir hans framlag til deildarinnar, bæði í meistaraflokki og einnig í þjálfun yngri flokka liðsins. Jafnframt óskar deildin honum og fjölskyldu hans velfarnaðar í framtíðinni, þá sér í lagi fyrir komandi viðbót í fjölskylduna.

Stjórn KKD Tindastóls“

Ekki er að efa að Króksarar og stuðningsmenn Tindastóls eiga eftir að sakna þess að hafa þennan mikla meistara í Skagafirðinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir