Búrhval ber upp við Blönduós

Hvalreki við ósa Blöndu. MYND: HÚNI.IS / ÁGÚST ÞÓR BRAGASON
Hvalreki við ósa Blöndu. MYND: HÚNI.IS / ÁGÚST ÞÓR BRAGASON

Nú á upphafsdögum samkomubanns vegna COVID-19 hefur náttúran sent Blönduósingum sérkennilegan snúningsbolta í líki hvalreka, en hér fyrr á tímum þótti slíkur reki sérstakt happ og bjargaði jafnvel heilu sveitunum frá bjargarskorti og hungursneyð. Húni.is segir frá því að hval hafi rekið upp í fjöruna við ósa Blöndu og að líklega sé um búrhval að ræða. 

Myndina sem fylgir fréttinni tók Ágúst Þór Bragason af hvalshræinu sem liggur utan í sjóvarnargarðinum við Brekkubyggðina. Hvalurinn er líklega um 7-10 metra langur. Tekin verða sýni úr honum í dag og þá fæst staðfest lengd hans.

Á heimasíðu Byggðasafns Vestfjarða segir um hvalreka: Hér fyrr á tíð þótti hvalreki sérstakt happ og í ísaárum bjargaði hann oft heilu sveitunum frá bjargarskorti og hungursneyð, sem tvímælalaust hefði oft orðið. Má eiginlega segja að hvalrekarnir hafi verið lífsbjörg þjóðarinnar fyrr á öldum þegar sultur og seyra sóttu að. ... Mesti hvalreki sem vitað er um á Íslandi var á Syðri Ánastöðum í Húnavatnssýslu vorið 1882. Þá fylltust allar víkur og vogar  af hafís, og urðu þá innlyksa á stað sem Sandvík heitir, 32 hvalir sem allir voru síðan drepnir og skornir af bændum þar í sveitinni.

Í nútimanum eru hvalrekar kannski fyrst og fremst forvitnilegir en eru mestmegnis tómt vesen fyrir eigendur þeirra jarða þar sem hvalinn rekur á land. Hann er því enginn aufúsugestur lengur – jafnvel þó hann reki á land á erfiðum tímum.

Sjá nánar um hvalreka > 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir