Byggðalistinn stakk upp á samstarfi með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum

Ólafur Bjarni Haraldsson, oddviti Byggðalistans.
Ólafur Bjarni Haraldsson, oddviti Byggðalistans.

 Nú eru kosningar að baki og meirihlutasamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks staðreynd í Svf. Skagafirði án aðkomu Byggðalistans en honum var boðin þátttaka í samstarfinu sem var afþakkuð. Ólafur Bjarni Haraldsson er oddviti listans sem fékk 460 atkvæði eða rúman fimmtung atkvæða. Ólafur er sáttur við niðurstöðu kosninganna.

„Já mjög svo. Okkar hópur lagði á sig mikla vinnu á stuttum tíma sem skilaði okkur hreint út sagt ótrúlegum árangri. Við lögðum upp með að vera heiðarleg og hafa okkar baráttu ekki á neikvæðum nótum í garð annarra. Ég held að okkur hafi tekist vel til og ætlum við að halda því áfram.“ Hann segir að listinn hafi fengið tilboð um að ganga inn í núverandi meirihlutasamstarf sem var hafnað á þeim forsendum að það væri ekki vilji kjósenda miðað við niðurstöður kosninga.

Aðspurður, um hvort vilji hafi verið í þeirra röðum að fara í meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, segir hann að þau hafi komið með þá tillögu sem fyrsta kost. „... töldum líklegra að XD og XV næðu saman fremur en XB og VÓ. Oddviti XD hafnaði þeirri tillögu.“

„Meðan meirihluti heldur er þetta í þeirra höndum. En slitni upp úr því samstarfi erum við með útfærðar lausnir á myndun meirihluta, þar sem þeim breytingum yrði náð sem kjósendur eru að biðja um. Það mun því ekki standa á okkur að axla þá ábyrgð að mynda starfhæfan meirihluta sem næði fram þeim breytingum sem kjósendur okkar vilja.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?

„Mikilli þökk til þeirra sem kusu okkur. Ég var mjög hrærður að finna í verki fyrir þessu trausti sem við fengum, og með það í farteskinu munum við skila kjósendum okkar því sem þau treystu okkur fyrir, að vinna af heilindum þau verkefni sem okkur er ætlað að takast á við og ná fram þeim breytingum sem fólk vill. Það yrði ekki gert með því að ganga inn í meirihlutasamstarf núverandi meirihluta,“ segir Ólafur Bjarni í lokin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir