Byggðasafn Skagfirðinga fær aðstöðu í prestssetrinu í Glaumbæ

Prestssetrið í Glaumbæ fær nú nýtt hlutverk. MYND AF FACEBOOK
Prestssetrið í Glaumbæ fær nú nýtt hlutverk. MYND AF FACEBOOK

Skrifstofur og aðstaða starfsfólks Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ mun á næstu vikum færast yfir í prestssetrið í Glaumbæ. Í frétt á Facebook-síðu safnsins segir að góð vinnuaðstaða sé í prestssetrinu og rými til að búa vel að öllu starfsfólki, bæði fastráðnu og sumarstarfsfólki.

Flutningur skrifstofu fornleifadeildar fram í Glaumbæ og aukin starfsemi á svæðinu hefur kallað á bætta aðstöðu og meira rými en Gilsstofan hefur upp á að bjóða. Gilsstofan hefur sinnt hlutverki sínu með mikilli prýði síðustu ár en nú verður loks hægt að gera henni og sögu hennar góð skil og leyfa henni að njóta sín með því að setja þar upp sýningu og opna hana fyrir gestum safnsins.

„Verða þannig öll húsin á safnsvæðinu aðgengileg fyrir gesti og mynda saman skemmtilega heildarmynd og upplifun,“ segir í fréttinni.

Séra Gísli Gunnarsson hefur byggt sér hús skammt sunnan Glaumbæjar og þarf fólk því ekki að örvænta hans vegna. Hann tjáði Feyki að skrifstofa Glaumbæjarprestakalls verði áfram í prestssetrinu, suðurhlutanum, og er þar sérinngangur að austan. Þar er einnig snyrting sem nýtist kirkjugestum. Safnið leigir restina af húsinu af þjóðkirkjunni.

Prestssetrið er frá 2003 en Áshúsið var byggt á árunum 1883-1886 og má því leiða líkum að því að aðstöðumunurinn verði all nokkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir