Bytta Björns „dasks“ :: Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum

Bytta Björns „dasks“ í „nausti sínu“ á Byggðasafniniu. Mynd: Gunnar Rögnvaldsson.
Bytta Björns „dasks“ í „nausti sínu“ á Byggðasafniniu. Mynd: Gunnar Rögnvaldsson.

Byggðasafnið á Reykjum varðveitir töluvert marga báta en bátasmíði beggja vegna Húnaflóa var umfangsmikil á árum áður og margir rómaðir bátasmiðir sem létu eftir sig falleg og farsæl fley. Björn Guðmundsson (1830-1907) sem kallaður var daskari átti súðbyrtan smábát, gaflkænu, sem stundum voru kallaðar “byttur” vegna lögunar sinnar. Ekki er vitað um nafn, en hún var ævinlega kennd við eiganda sinn. Báturinn mun vera smíðaður á árunum 1870-78 og var gefinn safninu af Guðmundi Guðmundssyni í Grafarkoti í Vestur-Húnavatnssýslu. Þetta er lítil skekta, 4,82 metrar á lengd, breidd: 1,43 m og dýptin 71-77 sm.

 Björn var fæddur á Einfætingsgili í Bitru, bjó um hríð í Guðlaugsvík í Hrútafirði, en átti lengi heima á Kárastöðum á Vatnsnesi. Hann var þekktur fyrir ferðir sínar um Húnaflóa, á milli Stranda og Vatnsness, sem hann fór venjulega einn á byttunni. Má til gamans segja að byttan hafi verið eins konar „flóabátur“ því Björn var kaupsýslumaður þó í smáum stíl væri. Á Ströndum keypti hann harðfisk, hákarl, sái og ýmis ílát sem hann seldi síðan inni í sveitum fyrir landvöru, tólg, smér, vaðmál og annað sem Strandamenn vanhagaði um og seldi aftur norður þar. Viðurnefnið daskur vita menn ekki hvernig var til komið en Guðbjörg í Broddanesi, sem fjallar um Björn í æviminningunum Gamlar glæður, getur sér til að vegna verslunarhátta Björns hafi braskarnafnbót fylgt honum sem síðan hafi breyst í “daskara”

 

 

 

Á ferðum sínum lenti Björn oft í misjöfnu, enda vanur vosinu og sigldi stundum í hvössu, en var sjóhræddur hjá öðrum. Væri hann spurður er að landi kom hvort ekki hefði verið illfært svaraði hann til: „Og svei því kornið!“ eða „Ansinn hafi það!“

Teikning af byttunni úr Íslenskum sjávarháttum,
Lúðvíks Kristjánssonar. 

 Í ævisögu Thors Jensen segir hann frá því er hann kemur í fyrsta sinni til Íslands 1878 með seglskipinu Júnó. Lá leiðin inn að Borðeyri og hrepptu þeir þoku og ísrek. Skyndilega grilltu skipverja í mann sem lá sofandi á ísjaka þarna á Húnaflóanum. Hafði Björn þá verið á ferð og er þokan skall á tók hann það til ráðs að skríða upp á einn ísjakann og binda byttuna við fót sér og sofnaði síðan. Danirnir buðu honum far en ekki þáði Björn það, hefur líklega treyst sjálfum sér ekki síður en danskinum að rata til lands.
/Myndir og texti: Gunnar Rögnvaldsson.

 Áður birst í 44. tbl. Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir