Katla er afskaplega lítil, ljúf og góð

Katla með Kristófer Elmar, Fanndísi Völu og Þórð Braga. AÐSEND MYND
Katla með Kristófer Elmar, Fanndísi Völu og Þórð Braga. AÐSEND MYND

ÉG OG GÆLUDÝRIÐ I Þórður Bragi Sigurðsson og Fanndís Vala Sigurðardóttir | hesturinn Katla

Á Ríp í Hegranesinu í Skagafirði búa systkinin Þórður Bragi og Fanndís Vala. Foreldrar þeirra eru Sigurður Heiðar Birgisson og Sigurlína Erla Magnúsdóttir og eiga þau lítinn bróður sem heitir Kristófer Elmar. Þau ætla að segja okkur frá uppáhalds hestinum sínum henni Kötlu. 

Hvernig gæludýr eigið þið? Í sveitinni eru mörg dýr, hestar, kindur, hundar og kisur en eitt af uppáhalds dýrunum eru hestarnir og þar fremst í flokki er Katla frá Íbishóli sem er 28 vetra gömul hryssa sem var fyrsta hrossið sem við fórum ein í reiðtúr á. Var hún líka fyrsta, og uppáhalds, reiðhrossið hennar mömmu (Sigurlínu) þegar hún var lítil og erum við krakkarnir svo heppin að fá að njóta hennar líka. Þó hún sé hestur köllum við hana gæludýrið okkar því hún er svo góð og mikil vinkona okkar.

Hvernig eignuðust þið Kötlu? Katla er fædd á Íbishóli þar sem afi, Magnús Bragi, og amma, Valborg Jónína, stunduðu hestamennsku og afi gerir enn í dag. Hún var þriggja mánaða tamin þegar mamma fór að fara ein á henni í reiðtúra, hún þá fjögurra vetra og mamma sex ára. Svo þegar hún og systkinin hennar hættu að fara á hestbak á hana eignaðist hún fimm folöld. Vorum við svo heppin að afi gaf okkur hana og kom hún hingað til okkar á Ríp svo að við krakkarnir gætum farið að leika okkur á henni og byrjað að fara á hestbak ein.

Hvað er skemmtilegast við Kötlu? Hún er afskaplega lítil, ljúf og góð og hefur kennt okkur öllum sem hafa riðið henni margt í hestamennsku. Hún er með einstakt geðslag og passaði mömmu og systkini hennar þegar þau voru lítil á Íbishóli og í dag leikum við krakkarnir okkur með henni og hægt að treysta henni alveg 100%. Afskaplega góður kennari og leyfir okkur að leika með sér og á henni alveg endalaust.

Hvað er erfiðast? Katla er að verða gömul og verður erfitt að kveðja hana þar sem hún hefur fylgt okkur alla okkar ævi og mikið uppáhalds hross hjá okkur fjölskyldunni. En hún er líka svo stór að hún þarf að eiga heima í hesthúsinu.

Eruð þið með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af Kötlu? Katla er einstök og mamma hefur sagt okkur margar sögur af henni þegar þær voru saman í reiðtúrum og hestaferðum. Einu sinni var mamma á leiðinni heim úr réttunum og var hnakkurinn hjá henni orðinn laus en Katla passaði hana alla leið heim og sveigði sig til hliðar þegar hún var næstum því dottin til að passa að hún myndi ekki detta af baki. Hún passar alltaf vel upp alla sem eru í kringum hana og vill leyfa öllum að njóta sín í kringum hana. Svo höfum við bæði systkinin keppt á henni í pollaflokki í okkar fyrstu keppni og er hún alltaf jafn góð og gerir allt fyrir okkur sem við biðjum hana um. 

Feykir þakkar þeim þeim systkinum kærlega fyrir að vera með í Ég og gæludýrið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir