Rifinn grís og kjúklingur á vöfflu

Gunnar Bragi matgæðingur Mynd: aðsend
Gunnar Bragi matgæðingur Mynd: aðsend

Matgæðingurinn í tbl 5 á þessu ári var Gunnar Bragi Sveinsson en sonur hans, Róbert Smári Gunnarsson, skoraði á pabba sinn að taka við boltanum í þessum matarþætti. Gunnar Bragi hefur verið áberandi í pólitíkinni fyrir hönd Framsóknarmanna en í dag er hann kenndur við Miðflokkinn og er búsettur á Reykjavíkursvæðinu en fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. 

„Hér eru tvær uppskriftir sem eru einfaldar en góðar. Sú fyrri er rifinn grís eða „pulled pork“ en seinni er sáraeinföld og kemur skemmtilega á óvart“, segir Gunnar Bragi.

RÉTTUR 1
Hægeldaður rifinn grís (pulled pork)
    1 stk. grís, nei þetta er nú djók, grísabógur
    2-3 laukar (til þess að setja í botninn á pottinum).
    Sweet Baby BBQ sósa
    hamborgarabrauð
    álegg eins og t.d. salat og tómata

Ég nota grísabóg því hann fæst oft á góðu verði og þrátt fyrir að beinið sé stórt er einnig mikið af kjöti. Ég sker mest af þykku fitunni af því mér finnst allt verða löðrandi í fitu ef hún er með en það skal tekið fram að þetta er nú bara smekksatriði.

Kryddblandan á bóginn:
    200 g púðursykur
    4 hvítlauksrif (pressuð)
    1 tsk. reykt paprikukrydd
    1 tsk. paprikukrydd
    1 tsk. cuminkrydd
    ½ tsk. cayennepipar
    1 msk. ólífuolía
    salt og pipar

Aðferð: Fyrst er bógurinn snyrtur og síðan kryddaður með pipar og salti eftir smekk. Blandið saman púðursykri, kryddunum og ólífuolíunni og makið vel á bóginn. Best að gera þetta með höndunum (gott að nota einnota hanska) og nudda vel á allan bóginn. Ef blandan er ekki næg að ykkar mati þá er bara að búa til meira. Ekki er verra að krydda bóginn sólarhring áður. Skerið nú tvo til þrjá lauka og setjið í botninn á potti sem rúmar bóginn. Svörtu steikarpottarnir eru fínir en ekki síðri eru steypujárnspottarnir því hvoru tveggja má fara í ofn. Leggið svo bóginn ofan á laukana, lokið pottinum og eldið í ofni við 150°C í 4 klst. (Það má hafa hitann lægri en auka þá tímann). Þegar ca. 30 mínútur eru eftir af eldunartímanum takið þá pottinn út og penslið kjötið með BBQ sósu,
ég nota sjálfur Sweet Baby Ray BBQ sósuna. Setjið pottinn aftur inn án loks og klárið eldunartímann. Þegar kjötið er fulleldað er það tekið úr pottinum og látið kólna á eldhúsbekknum. Þegar það er orðið þokkalega kalt þá takið þið tvo gaffla og rífið kjötið af beininu og tætið í sundur með þeim. Takið hamborgarabrauð, setjið BBQ sósu á botninn og lokið, salatblað og t.d. góða tómatsneið, því næst vel af rifna kjötinu og njótið. Það má vel leika sér með meðlætið með kjötinu og hvað þú vilt hafa með. Það má vel frysta rifið grísakjöt og munið að þetta er fulleldað. Mér finnst hins vegar best að hita það upp í potti og hræra smá BBQ sósu saman við.

RÉTTUR 2
Kjúklingur á vöfflu

    kjúklinganaggar
    vöffludeig
    1/2 dós sýrður rjómi
    harissa „paste“
    hlynsýróp, (maple syrop)
    ferskur kóríander

Aðferð: Bestu naggarnir sem ég hef komist í tæri við (hef ekki prufað að gera þá sjálfur) fást í Costco og heita Flaming Chicken Nuggets. Þeir
eru vel kryddaðir og spicy. Hitið naggana í ofni og á meðan búið þið til vöfflur og mæli ég með Vilko vöfflunum, mjög fljótlegar. Síðan takið þið ½ dós af sýrða rjómanum og hrærið saman við hann u.þ.b. msk. af Harissa kreminu (paste). Harissa er sterkt svo ég mæli með því að þið smakkið ykkur áfram með þetta. Þegar kjúklingurinn og vöfflurnar eru tilbúnar er bara að njóta. Setjið kjúklinganagga á vöffluna, setjið smávegis yfir naggana af Harissablöndunni, vel af sýrópi og stráið yfir ferskum kóríander.

Verði ykkur að góðu!

Sigga sigga sigga

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir