Comeníusarferð til Portúgal

Þrír nemendur úr Blönduskóla, þau Óskar Þór, Berglind Birta og Jóhanna Skagfjörð, ásamt Önnu Margreti kennara fóru á Comeníusarfund til Fatíma í Portugal á dögunum.

Þar tóku þau þátt í vorhátíð skólans þar sem hvert land kynnti eitthvað þjóðlegt.

Ákveðið var að íslensku krakkarnir sýndu glímu enda fátt íslenskara.

Einnig voru þau með íslenskan bás þar sem þau sýndu eitt og annað sem krakkarnir í unglingadeildinni voru búnir að gera hér heima. Má þar nefna bæklinga um íslenska tónlistarmenn, glærusýningu um íslenska rithöfunda og glærusýningu um íþóttir. Einnig höfðu nemendur og kennari í myndlistarvali gert veglega bók um íslenska listamenn fyrr og síðar.

Til að gera básinn ennþá íslenskari voru þau með eitt og annað þjóðlegt eins og völu, ullarvettlinga og peysu, sauðskinsskó og roðskó. Síðast en ekki síst var boðið upp á íslenskt sælgæti, Djúpur varð fyrir valinu, og vöktu súkkulaðikúlurnar mikla athygli.

Á sunnudegi fengu þau að skoða sig um í Fatíma og fengu þau meðal annars að vita allt um það þegar María birtist þremur hirðingjabörnum. Vegna þessarar vitrunar koma um 7,5 milljónir manna til Fatíma á hverju ári. Einnig skoðuðu þau mjög fallega hella.

Á mánudegi tóku nemendur svo þátt í venjulegum skóladegi sem var áhugavert fyrir þá.

Skemmst er frá því að segja að allir skemmtu sér hið besta í ferðinni bæði nemendur og kennari. Nemendur kynntust mörgum nemendum frá hinum þátttökulöndunum en Íslendingarnir og Þjóðverjarnir náðu sérstaklega vel saman og myndaðist mikill vinskapur. Blönduskóli segir frá þessu.

Hér er hægt að skoða myndir úr ferðinni.

Fleiri fréttir