Dreymir um heimsókn í sænsku Smálöndin og Ólátagarð

Myndin sem bókarkápan á bók afa Ingu Heiðu er máluð eftir. Inga Heiða er hér (t.h.)ásamt frænku sinni, Sigríði Íris Hallgrímsdóttur, sem einnig er barnabarn Jóns. Þær eru hér í góðum félagsskap með hundinum Sámi og ónafngreindri krúttlegri kvígu. Aðsendar myndir.
Myndin sem bókarkápan á bók afa Ingu Heiðu er máluð eftir. Inga Heiða er hér (t.h.)ásamt frænku sinni, Sigríði Íris Hallgrímsdóttur, sem einnig er barnabarn Jóns. Þær eru hér í góðum félagsskap með hundinum Sámi og ónafngreindri krúttlegri kvígu. Aðsendar myndir.

Ingibjörg Arnheiður Halldórsdóttir, eða Inga Heiða eins og hún er jafnan kölluð, er uppalin í Óslandshlíðinni í Skagafirði. Hún býr í Reykjavík og starfar einmitt við bókhald, þó í öðrum skilningi en við leggjum í það orð hér í þessum þætti. Inga Heiða er mikill bókaormur og reglulega birtir hún skemmtilega pistla á Facebooksíðu sinni sem hún kallar Bókahorn Ingibjargar. Þar segir hún vinum sínum, á hnittinn og skemmtilegan hátt, frá bókunum sem hún hefur verið að lesa og leggur mat á þær og vafalaust eru þeir margir sem sækja hugmyndir að lesefni til hennar. Inga Heiða sagði lesendum Feykis frá lestrarvenjum sínum í Bók-haldinu í síðasta blaði ársins 2019.

Hvers konar bækur lestu helst?
Ég les nær eingöngu skáldsögur, bæði íslenskar og erlendar en mér finnst ævisögur líka mjög skemmtilegar.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?„Í hámarki gelgjunnar að lesa Rauðu seríuna! Vandræðalegt,“ segir Inga Heiða um þessa mynd.
Enid Blyton var í miklu uppáhaldi en ég er ekki viss um að ég gæti lesið eina bók eftir hana núna. Bækurnar um Elías eftir Auði Haralds slógu í gegn á sínum tíma og ég gæti alveg hugsað mér að lesa þær aftur. Þegar unglingsárin hófust þá byrjaði ég að lesa Ísfólkið og svo Rauðu seríuna, ástarsögurnar sem allar eru eins.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Karítas án titils, Náðarstund, Bókmennta- og kartöflubökufélagið, Ljósa, Næturgalinn, Húshjálpin, Glerkastalinn, Bókaþjófurinn, svo nokkrar séu nefndar.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?
Astrid Lindgren og J.K. Rowling. Þær hafa báðar mikla náðargáfu og sköpuðu tímalausa undraveröld og ég veit að börn og fullorðnir munu halda áfram að lesa bækurnar þeirra um ókomna tíð.

Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Ég er alltaf með bókastafla á náttborðinu sem er auðvitað stórhættulegt þegar maður býr í landi þar sem jarðskjálftar eru tíðir. Ég er núna á milli bóka en var að ljúka við danskan krimma sem heitir Kastaníumaðurinn, fínasta afþreying.

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?
Ég fjárfesti í bókasafnskorti í lok sumars og sé ekki eftir því.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð?
Engin uppáhalds en ég elska bókabúðir og get eytt löngum tíma í slíkum verslunum.

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Þær eru ansi margar og ég vil helst ekki vita fjöldann. Það er skiptibókahilla á vinnustaðnum mínum, þar skil ég oft eftir bækur til að grisja heima.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Líklega 20 bækur eða fleiri. Á árinu gerðist ég áskrifandi hjá bókaforlaginu Angústúru og það er ótrúlega skemmtilegt að fá nýja og vandaða bók í pósti.

Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Nei, ekki eftir að ég varð fullorðin.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?
Afi minn, Jón Bjarnason frá Garðsvík var nokkuð afkastamikill rithöfundur og skrásetti sögur af samtímafólki sínu og markmiðið er að lesa allar bækurnar hans. Ég er meira að segja framan á einni bókinni og ég man hvað mér þótti myndin vera asnaleg en hún er máluð eftir ljósmynd. Nú þykir mér ægilega vænt um þessa mynd og bók.

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Ekki svo ég muni til en mig dreymir um að heimsækja sænsku Smálöndin, til dæmis í Ólátagarð.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Ég þreytist ekki á að mæla með bókinni Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah sem ólst upp við sérstakar aðstæður í Suður Afríku en móðir hans er svört og faðir hans hvítur Evrópubúi og þegar Trevor fæðist þá var það glæpur að blanda saman kynþáttum, þannig að hann fæddist beinlínis sem glæpur (útskýring á nafni bókarinnar). Hann segir frá uppvexti sínum sem er ótrúleg frásögn. Trevor stjórnar The Daily Show ásamt því að vera vinsæll uppistandari en hann er einmitt væntanlegur til Íslands næsta vor með uppistand. Fyrst hlustaði ég á hljóðbókina Born a crime en Trevor les hana sjálfur og ég mæli svo innilega með því að hlusta á þann lestur. Algjörlega frábær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir