Dvalarleyfin eru ekki vandamálið | Hjörtur J. Guðmundsson
Tal Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra og þingmanns Viðreisnar, um að taka þurfi á veitingu dvalarleyfa hér á landi í því skyni að taka útlendingamálin fastari tökum er í bezta falli broslegt í ljósi þess að mikill meirihluti þeirra sem komið hafa til landsins á undanförnum árum hafa ekki þurft slík leyfi. Ástæðan er sú að þeir hafa komið frá eða í gegnum önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) þaðan sem frjálst flæði fólks er til landsins.
Komið hefur verið inn á þessa lykilstaðreynd í máli ráðherrans en meira eins og neðanmálsgrein. Það er að 75% þeirra sem komið hafa til landsins hafi komið frá öðrum ríkjum innan EES. Áherzlan hefur öll verið á hin 25%. Þá sem koma frá ríkjum utan svæðisins. Sjálfsagt er auðvitað að horfa til þess hóps en hins vegar er ljóst að hann er ekki stóra viðfangsefnið í þessum efnum heldur hinn hópurinn. Engin áform eru hins vegar uppi um að gera eitthvað í þeim efnum.
Með öðrum orðum er ljóst að þó Þorbjörg myndi draga verulega úr veitingu dvalarleyfa myndi það duga skammt. Vitanlega vill hún ekki hrófla við frjálsu flæði fólks til Íslands í gegnum EES-samninginn sem kemur aðallega frá ríkjum Evrópusambandsins enda samræmdist það ekki meginstefnu Viðreisnar um að koma Íslandi inn í sambandið. Þvert á móti er markmið flokksins að festa galopin landamæri gagnvart Evrópusambandinu kyrfilega í sessi með inngöngu í það.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur