Dýrakotsnammi á Sauðárkróki með háan styrk
Fyrirtækið Dýrakotsnammi sem er í eigu Hönnu Þrúðar Þórðardóttur hlaut einn af 10 hæstu styrkjum sem veitt var úr sérstökun sjóði til styrktar atvinnumála kvenna í gær. Fyrirtækið framleiðir gæða hunda- og kattanammi úr íslenskri lamba-, ungnauta- og ungkálfalifur. Varan er nýnæmi því ekki hefur lifur áður verið nýtt á þennan hátt.
Varan er hágæðavara með gott geymsluþol og er óhætt að gefa hana köttum og hundum með ofnæmi og fæðuóþol. Byggja á fyrirtækið upp á næstu mánuðum og fara í frekari vöruþróun og þróun umbúða. Nú þegar hafa byggst upp viðskiptasambönd við aðila, svo sem dýralækna og gæludýrabúðir, en stuttu eftir að fyrirtækið hóf starfsemi voru sölustaðir um 20 talsins. Fyrirhugað er að setja upp heimasíðu þar sem viðskiptavinir geta pantað vöru beint og huga á að útflutningi vörunnar en mikil tækifæri eru talin liggja í útflutningi þar sem um gæðavöru er að ræða.