Ég er baráttujaxl og ætla að sigra

Elísabet Sóley Stefánsdóttir glímdi við heilsuleysi til margra ára. Hún þræddi hvern sérfræðinginn á eftir öðrum í leit að betri líðan en fékk aldrei bót meina sinna. Loks kom reiðarslagið síðastliðið sumar þegar hún var greind með krabbamein á lokastigi og fékk þær fregnir að hún hafi að öllum líkindum verið með meinið í minnst tíu til ellefu ár.

Elísabet rifjar upp þann örlagaríka dag, 22. júlí, í viðtali við Feyki þegar hún fékk loks þá greiningu að hún væri með krabbamein.

„Vinkona mín bauðst til þess að fara með mér til sérfræðingsins. Við áttum von á niðurstöðu um hvenær ég færi í þessa lungaaðgerð og hvort það þyrfti að opna mig alla eða gera þetta gegnum göt. Inn fórum við jákvæðar og bjartsýnar en út komum við hágrátandi. Niðurstöðurnar voru þvert á allt sem ég var nú þegar búin að fá, það var einhvern veginn búið að sannfæra mig um að öll þessi æxli væru góðkynja. Krabbamein var því komið úr minni hugsun.

Áfallið var gífurlegt - það er ekki hægt að útskýra það. En ég tók strax ákvörðun um að sigra þetta krabbamein. Ég er baráttujaxl og ég bara ætla að sigra, ná heilsu fyrir mig og stelpurnar mínar,“ segir hún en ítarlegt viðtal við Elísabetu er í Feyki sem kom út gær.

Fleiri fréttir