Eigendur Hrauna í Fljótum hafa samþykkt tilboð Eleven Experience í jörðina

Lúxushótelið Deplum í Fljótum. MYND: ÓAB
Lúxushótelið Deplum í Fljótum. MYND: ÓAB

Nokkuð hefur verið fjallað um jarðakaup erlendra fjárfesta í fjölmiðlum að undanförnu og meðal annars hefur athyglin beinst að viðskiptum Eleven Experience í Fljótum sem meðal annars reka glæsihótel að Deplum. Í gær sagði Morgunblaðið frá því að eigendur jarðarinnar Hrauna í Fljótum hafi nú samþykkt kauptilboð EE í jörðina.

Ýmsir eru áhyggjufullir vegna þessarar þróunar og um liðna helgi birti Morgunblaðið ítarlega úttekt á jarðakaupum erlendra aðila og voru væntanleg kaup á Hraunum þar í miðdepli en skiptar skoðanir eru um þau. Meðal annars ræddi Mogginn við Stefán Vagn Stefánsson, formann byggðarráðs Skagafjarðar, en hann segir ráðið ekki hafa tekið kaupin til athugunar. „Við höf­um ákveðnar áhyggj­ur af stöðunni, ekki aðeins þarna, held­ur al­mennt vegna upp­kaupa á jörðum sem kaup­end­ur ætla ekki til nytja,“ hefur Mogginn eftir Stefáni Vagni sem tel­ur ríkið þurfa að grípa til aðgerða. Vand­inn sé al­menn­ur og á landsvísu.

„Ég held að bolt­inn sé hjá rík­is­vald­inu, þetta verður að byrja þar,“ seg­ir hann. „Mér skilst á Sig­urði Inga [Jó­hanns­syni, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra], að hann ætli að setja af stað vinnu í þess­um mál­um á landsvísu. Það verður fróðlegt að fylgj­ast með og við mun­um klár­lega gera það,“ seg­ir Stefán Vagn.

Jó­hann­es H. Rík­h­arðsson, bóndi á Brúna­stöðum, seg­ir starf­sem­ina á Depl­um geta gert mikið fyr­ir at­vinnu­lífið. Hin hliðin á pen­ingn­um sé sú að sam­fé­lag­inu á svæðinu gæti stafað hætta af. „Við höf­um áhyggj­ur af því að það sé verið að kaupa upp þess­ar jarðir sem losna, án þess að þar verði föst bú­seta,“ seg­ir Jó­hann­es.

Hauk­ur B. Sig­mars­son, fram­kvæmda­stjóri Green Highland­er, rekstraraðila hótelsins á Deplum, staðfest­ir við Morgunblaðið að kauptilboð í jörðina Hraun hafi verið samþykkt en hann áréttar að félagið kaupi ekki bæi í búskap og byggð. „Mikið um­fang fylg­ir starf­sem­inni á Depl­um. Við bjóðum þar meðal ann­ars upp á veiði, göngu­ferðir, vélsleðaferðir, kaj­ak­ferðir, hjóla­ferðir, jóga og vellíðun­ar­meðferðir. Frá mars og fram í júní er einnig boðið upp á þyrlu­skíðaferðir frá Depl­um. Þær jarðir sem fé­lagið hef­ur fjár­fest í hafa ým­ist verið komn­ar í eyði eða bænd­ur við það að bregða búi. Hluti af því er nýtt­ur fyr­ir starfs­fólk Depla, en á álags­tím­um eru allt að 40 starfs­menn á svæðinu,“ seg­ir Hauk­ur meðal annars í viðtali við Morgunblaðið.

Í umfjölluninni er farið yfir hvaða jarðir hafa verið keyptar í Fljótum að undanförnu og er hægt að lesa nánar um það með því að smella á hlekkina hér að neðan.

Heimild: Mbl.is og Morgunblaðið
Sjá nánar í eftirtöldum fréttum á Mbl.is:
Frétt á Mbl.is þann 14. júlí sl. > 
Frétt á Mbl.is þann 19. júlí sl. >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir