Eigendur Hrauna í Fljótum hafa samþykkt tilboð Eleven Experience í jörðina
Nokkuð hefur verið fjallað um jarðakaup erlendra fjárfesta í fjölmiðlum að undanförnu og meðal annars hefur athyglin beinst að viðskiptum Eleven Experience í Fljótum sem meðal annars reka glæsihótel að Deplum. Í gær sagði Morgunblaðið frá því að eigendur jarðarinnar Hrauna í Fljótum hafi nú samþykkt kauptilboð EE í jörðina.
Ýmsir eru áhyggjufullir vegna þessarar þróunar og um liðna helgi birti Morgunblaðið ítarlega úttekt á jarðakaupum erlendra aðila og voru væntanleg kaup á Hraunum þar í miðdepli en skiptar skoðanir eru um þau. Meðal annars ræddi Mogginn við Stefán Vagn Stefánsson, formann byggðarráðs Skagafjarðar, en hann segir ráðið ekki hafa tekið kaupin til athugunar. „Við höfum ákveðnar áhyggjur af stöðunni, ekki aðeins þarna, heldur almennt vegna uppkaupa á jörðum sem kaupendur ætla ekki til nytja,“ hefur Mogginn eftir Stefáni Vagni sem telur ríkið þurfa að grípa til aðgerða. Vandinn sé almennur og á landsvísu.
„Ég held að boltinn sé hjá ríkisvaldinu, þetta verður að byrja þar,“ segir hann. „Mér skilst á Sigurði Inga [Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra], að hann ætli að setja af stað vinnu í þessum málum á landsvísu. Það verður fróðlegt að fylgjast með og við munum klárlega gera það,“ segir Stefán Vagn.
Jóhannes H. Ríkharðsson, bóndi á Brúnastöðum, segir starfsemina á Deplum geta gert mikið fyrir atvinnulífið. Hin hliðin á peningnum sé sú að samfélaginu á svæðinu gæti stafað hætta af. „Við höfum áhyggjur af því að það sé verið að kaupa upp þessar jarðir sem losna, án þess að þar verði föst búseta,“ segir Jóhannes.
Haukur B. Sigmarsson, framkvæmdastjóri Green Highlander, rekstraraðila hótelsins á Deplum, staðfestir við Morgunblaðið að kauptilboð í jörðina Hraun hafi verið samþykkt en hann áréttar að félagið kaupi ekki bæi í búskap og byggð. „Mikið umfang fylgir starfseminni á Deplum. Við bjóðum þar meðal annars upp á veiði, gönguferðir, vélsleðaferðir, kajakferðir, hjólaferðir, jóga og vellíðunarmeðferðir. Frá mars og fram í júní er einnig boðið upp á þyrluskíðaferðir frá Deplum. Þær jarðir sem félagið hefur fjárfest í hafa ýmist verið komnar í eyði eða bændur við það að bregða búi. Hluti af því er nýttur fyrir starfsfólk Depla, en á álagstímum eru allt að 40 starfsmenn á svæðinu,“ segir Haukur meðal annars í viðtali við Morgunblaðið.
Í umfjölluninni er farið yfir hvaða jarðir hafa verið keyptar í Fljótum að undanförnu og er hægt að lesa nánar um það með því að smella á hlekkina hér að neðan.
Heimild: Mbl.is og Morgunblaðið
Sjá nánar í eftirtöldum fréttum á Mbl.is:
Frétt á Mbl.is þann 14. júlí sl. >
Frétt á Mbl.is þann 19. júlí sl. >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.