Ekkert aprílgabb á söguslóð Þórðar kakala
Listafólk, sem nú dvelst í listasmiðju Kakalaskála í Kringlumýri, hélt að verið væri að gabba það í gær, 1. apríl, þegar þeim var sagt að biskupinn yfir Íslandi myndi mæta með sitt fylgdarlið í heimsókn í dag. En ekki var um gabb að ræða því frú Agnes M. Sigurðardóttir mætti í morgun og með henni í för voru þau Dalla Þórðardóttir prófastur og Þorvaldur Víðisson biskupsritari.
Fjölþjóðlegur hópur listamanna var fenginn til að hanna verk inn í sýningarrými Kakalaskála og túlka með eigin aðferðum og efnivið ákveðna atburði og persónur sögunnar sem nota á í sýninguna Á söguslóð Þórðar kakala sem opna á í sumar. Auk þess sem inn á milli verða stuttar skýringar, textabrot, ættartöflur og kort þar sem við á og verða verkin unnin á staðnum fram til 15. apríl. Auglýst var eftir listamönnum til að taka þátt í verkefninu og bárust alls um 90 umsóknir héðan og þaðan úr heiminum. Úr þeim hópi voru valdir 14 listamenn til þátttöku.
Jón Adólf Steinólfsson, myndhöggvari, er listrænn stjórnandi sýningarinnar og vinnur jafnframt að eigin verkum á meðan á listamannabúðunum stendur. Ferlið verður allt kvikmyndað og gestum boðið að koma og sjá listamennina vinna þá þrjá laugardaga sem þeir eru á staðnum.
Sýningin mun samanstanda af hljóðleiðsögn og þrjátíu listaverkum en hljóðleiðsögnin leiðir gesti í gegnum listaverkasýningu sem sýnir fólk, atburði og staði er tengjast lífi höfðingjans Þórðar kakala sem var uppi á Sturlungaöld. Sýningin mun svo opna fullbúin sumarið 2019.
Söfnun er nú í gangi á Karolina fund þar sem hægt er að leggja verkefninu lið eins og sjá má HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.