Ekki að drepast úr stressi þó viðskiptin hafi dregist saman

Þéttsetnu bekkirnir eiga ekki upp á pallborðið þessa dagana. MYNDIR FRÁ HARD WOK CAFÉ
Þéttsetnu bekkirnir eiga ekki upp á pallborðið þessa dagana. MYNDIR FRÁ HARD WOK CAFÉ

„Það var gripið til þess ráðs að fækka borðum til að verða við tilmælum sóttvarnalæknis en ein helsta breytingin er sú að ferðamenn sjást ekki og Íslendingar sem áttu leið um bæinn eru nánast horfnir líka. Við skiptum starfsfólkinu líka hjá okkur í tvö holl, hádegi og kvöld.,“ segir Árni Björn Björnsson, eigandi Hard Wok Café á Sauðárkróki, aðspurður um hvað hefði helst breyst í rekstrinum í kjölfar Covid-19. „Viðskiptin hafa dregist saman en ekki niður fyrir þau mörk að maður sé að drepast úr stressi,“ bætir hann við.

Er Hard Wok Café að bjóða upp á einhverjar nýjungar á þessum sérkennilegu tímum? „Dagsdaglega er það sami matseðill en svo höfum við verið með sushi og Indverska daga, það er kannski það helsta,“ segir Árni. Það má til gamans geta þess að Hard Wok Café verður 9 ára 1. maí og ég get lofað einhverju húllumhæi í kringum það.“

Hafið þið verið að nýta ykkur einhver úrræði sem stjórnvöld hefa verið að bjóða upp á og hvernig lýst þér á sumarið? „Já, við sömdum við starfsfólkið okkar, sem átti rétt til, að minka starfshlutfall við þau. Krakkarnir sem eru undir 18 falla víst ekki í þann hóp en þau hafa þó samþykkt að lækka starfshlutfall um helming. Ég er bjartsýnn á sumarið.“

Er eitthvað spennandi í deiglunni? „Fyrir veitingastaðinn að halda sjó og bíða þar til þetta fer upp á við aftur.“

Feykir hefur þefað uppi að þú hafir keypt minkabú hér frammi í sveit og þú stefnir á svepparæktun þar. Er eitthvað hæft í þessu? „Já, það er stefnan. Ég ætlaði að dunda við það í rólegheitum, svona með Wok, en er að pæla núna hvort ekki sé bara tími til að gefa í. Heimilið okkar er fullt af gaurum sem komast ekki í ræktina, spurning um að slá tvær flugur í einu höggi,“ segir Árni léttur.

Að lokum. Ef þú værir að panta af matseðlinum á Hard Wok hvað myndirðu fá þér? „Á ketó þá væri það kjúklinga ketó núðlur. Á étó ýsu poppið góða.“

Fleiri fréttir