Ekki náðu Stólarnir í stig í Garðabænum

Tindastólsmenn sóttu heim liðsmenn Knattspyrnufélags Garðabæjar í gær í fimmtu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Hingað til höfðu Stólarnir ekki enn nælt í stig í deildinni og því miður varð engin breyting á því en strákarnir eru þó farnir að koma boltanum í mark andstæðinganna þannig að það hlýtur að styttast í betri fréttir af liðinu. Lokatölur leiksins voru 4-2.

Daníel Andri Baldursson kom liði KFG yfir á 17. mínútu og Magnús Björgvinsson bætti um betur átta mínútum síðar. Lið Tindastóls komst inn í leikinn á ný þegar Benni afgreiddi vítaspyrnu í mark heimamanna og staðan 2-1 í hálfleik.

Markahrókurinn Arnar Ólafsson kom sér loks á blað í sumar þegar hann jafnaði leikinn 2-2 á 58. mínútu. Arnar og félagar voru þó ekki lengi í Paradís því tíu mínútum síðar varð Sverrir Hrafn fyrir því óláni að gera sjálfsmark. Garðar Viðarsson Scheving gerði síðan fjórða mark KFG á 81. mínútu og Garðbæingar sitja því nú í 2.-4. sæti 2. deildar með níu stig líkt og Fjarðabyggð og Völsungur.

Lið Tindastóls er aleitt á botninum með ekkert stig en næstu lið fyrir ofan eru Kári, Þróttur Vogum og ÍR og eru þau öll með fimm stig. Næsti leikur er hér heima annan í hvítasunnu en þá mætir Leiknir með sína útlendingahersveit en þeir Fáskrúðsfirðingar hafa enn ekki tapað leik í deildinni þegar þetta er skrifað, hafa unnið einn leik og gert þrjú jafntefli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir