Ekki tímabært að kjósa um sameiningu í haust

Sameiningarnefnd sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu kom saman til fundar þann 4. febrúar sl. þar sem meðal annars var rætt um stöðu sameiningarferlisins og næstu skref. Niðurstaða fundarins var sú að ekki sé tímabært að kjósa um sameiningu í haust eins og rætt hafði verið áður en þess í stað stefnt að kosningum á síðari hluta kjörtímabilsins. þ.e. á árinu 2020 eða í síðasta lagi 2021. Verði sameining samþykkt muni ný sveitarstjórn taka við eftir almennar sveitarstjórnarkosningar vorið 2022. Þetta kemur fram í fundargerð  sameiningarnefndar.

Í fundargerð segir að ljóst sé að ekki verði kosið um sameiningu í vor eins og stefnt var að í upphafi. Til þess að hægt sé að kjósa þurfi að vinna betur að málinu í heild. Rætt var um aðkomu hins opinbera, hver hún verði og hve lengi eigi að bíða svara þaðan. Þegar þau fáist verði hægt að fullvinna málefnaskrá, kynna hana í sveitarstjórnum og fyrir íbúum og kjósa í framhaldinu. Ekki liggi enn fyrir hver aðkoma Jöfnunarsjóðs að sameiningunni verði en það ætti að liggja fyrir á næstu vikum.

Niðurstaða fundarins var því sú að kosningar séu ekki tímabærar fyrr en á síðari hluta kjörtímabilsins en tíminn fram að því verði notaður til að vinna svokallaða SVÓT greiningu fyrir alla málaflokka sem koma fram í drögum að málefnasamningi. Þá þurfi framtíðarsýn fyrir Austur- Húnavatnssýslu að liggja fyrir og einnig þurfi aðkoma ríkisvaldsins að verkefnum á svæðinu og stefnumörkun til framtíðar í málefnum héraðsins að liggja fyrir með skýrari hætti.

Fundargerðir sameiningarnefndar og fréttir tengdar sameiningarmálum má nálgast á vefsíðunni Sameining Austur-Húnavatnssýslu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir