Ellý og Vilhjálmur, Kanadaferð og 90 ára afmæli
Vetrarstarf Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps hófst í gærkvöldi í Húnaveri. Mikil dagskrá er framundan en ákveðið var að æfa upp lög sem að Vilhjálmur Vilhjálmsson og Ellý Vilhjálms gerðu ódauðleg á ferli sínum. Verður sú dagskrá flutt á nýju ári. Einnig er framundan 90 ára afmæli kórsins á næsta ári 2015 og verður haldið upp á það með einhverjum hætti á vori komanda.
Síðast en ekki síst hefur kórinn ákveðið í samráði við Íslendingafélagið í Gimli að vera aðalgestir á Íslendingadeginum í Gimli í Kanada, í byrjun ágúst á næsta ári. Það er því mikið og spennandi starf framundan . Kórinn tekur nýjum kórfélögum opnum örmum og er ekkert annað að gera en að mæta á æfingu eða setja sig í samband við kórfélaga. Æft er á mánu- og fimmtudögum kl.20.30 í Húnaveri nema annað sé tekið fram, eins og fram kemur á vefnum huni.is. /KSE