Elskar ekkert meira en að skora mark - Íþróttagarpurinn Krista Sól Nielsen

Krista Sól Nielsen er knattspyrnukona í Tindastól, búsett á Sauðárkróki dóttir Ernu Nielsen og Gests Sigurjónssonar. Hún er af árgangi 2002 og þrátt fyrir ungan aldur var hún orðinn lykilmaður í meistaraflokki þar til hún meiddist illa í hné en er nú í miðju bataferli. Við athöfn Menningarsjóðs KS fyrir jól fékk Krista Sól afhentan afreksbikar Stefáns Guðmundssonar og Hrafnhildar Stefánsdóttur, en í umsögn um Kristu kom fram að hún lifi fyrir íþróttina og hafi alla tíð verið metnaðargjörn. „Hún er frábær einstaklingur, mikil keppniskona og hún mun koma sterk til baka.“ Krista er Íþróttagarpur Feykis þessa vikuna. 

Íþróttagrein: -Fótbolti. 

Íþróttafélag: -Að sjálfsögðu Tindastóll.

Helstu íþróttaafrek: -Fara á landsliðsæfingar, koma Tindastól upp um deild og spila í Inkasso. 

 

Skemmtilegasta augnablikið: -Mjög mörg skemmtileg augnablik til þess að velja úr en það sker sig samt alltaf úr að skora, elska ekkert meira en að skora mark.

Neyðarlegasta atvikið: -Í leik á móti Þór á Akureyri var leikmaður í hinu liðinu sem reif stuttbuxurnar mínar aðeins niður um mig, ákveðinn skellur að þurfa stoppa til þess að hysja þær upp.

Einhver sérviska eða hjátrú? -Það breytist voða mikið nema þegar það er heimaleikur kem ég alltaf auga á mömmu og Gest uppi í stúku, þá fer allt stress og leikurinn má byrja.

Uppáhalds íþróttamaður? -Held mikið upp á vin minn Jón Gísla Eyland, en annars eru Anthony Martial og Daniel James ofarlega líka.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Ég myndi skora á Önnu Margréti, formann alhliðanefndar, í danskeppni á Skaffó planinu.

Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Anna myndi byrja á að taka salsa en þegar ég tek enska valsinn þá hugsa ég að hún labbi bara í burtu, það væri líka bara skynsamlegast fyrir hana. Ég myndi að sjálfsögðu vinna.

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Lærði að elda pasta um daginn.

Lífsmottó: -Hausinn upp og áfram gakk.

Helsta fyrirmynd í lífinu: -Rosalega margir sem mig langar að telja upp en ég lít sérstaklega upp til ömmu minnar, Kristínar Einarsdóttur. Hún hefur einstaka sýn á lífið og hefur sýnt mér að maður fer lengst á jákvæðninni, bæði íþróttalega séð og bara í lífinu sjálfu.

Hvað er verið að gera þessa dagana? -Ég er að læra í FNV, þjálfa yngriflokka Tindastóls og svo er ég að vinna í því að komast á bataveg eftir krossbandsslit sem gengur allt prýðilega.

Hvað er framundan? -Framundan er langur bataferill hjá mér og ef allt gengur vel þá kem ég sterkari á völlinn á ný í lok sumars. Ég stefni langt í fótbolta og tek þessum meiðslum eins og vítamíni, þetta gerir mig sterkari. Svo er stórt sumar framundan hjá liðinu mínu, meistaraflokki kvenna Tindastóls. Við stefnum á að komast upp í Pepsi deildina. Þetta er frábær hópur sem ég hlakka til að styðja í botn í sumar, hvet alla til þess að gera hið sama og láta sjá sig á vellinum í sumar. Áfram Tindastóll!

Áður birst í 4. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir