Engin fyrirstaða með framkvæmdir við Sauðárkrókslínu 2

Sveitarfélagið Skagafjörður stendur við fyrri yfirlýsingu um að ekkert stóð í vegi fyrir því að Landsnet gæti hafið framkvæmdir við Sauðárkrókslínu 2 í kjölfar samþykktar sveitarstjórnar á aðalskipulagi 2009-2021, þann 17. desember 2009 og sem hlaut staðfestingu umhverfisráðherra 25. maí 2012, þar sem línan hafði verið sett inn.

Á heimasíðu sveitarfélagsins kemur einnig fram að enn fremur hafi ekkert staðið í vegi fyrir því að fyrirtækið gæti strax vorið 2018 hafið framkvæmdir við þann hluta Sauðárkrókslínu 2 sem þegar var inni á aðalskipulagi, í samræmi við það sem Landsnet segir að hafi verið áætlaður upphafstími framkvæmda, á meðan unnið væri að breytingum á aðalskipulagi vegna áforma um breytta strengleið hins hlutans.

„Það hlýtur að vera metnaðarmál fyrirtækisins að kappkosta við að ljúka framkvæmdum við Sauðárkrókslínu 2 sem fyrst og eiga í góðu samtali við hagsmunaaðila eins og Sveitarfélagið Skagafjörð, sem byggist á hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja,“ segir á Skagafjörður.is og vitnað þar í eigin orð Landsnets í frétt sinni á heimasíðu fyrirtækisins í vikunni.

Sveitarfélagið Skagafjörður lýsir sig sem fyrr reiðubúið í uppbyggilegt samtal um styrkingu raforkukerfisins í Skagafirði þannig að tryggja megi afhendingaröryggi sem allra best og koma í veg fyrir að aðstæður eins og þær sem uppi voru í síðustu viku komi fyrir aftur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir