Engin smit milli manna hér á landi

Tölur um fjölda smitaðra af kórónaveirunni breytist nú dag frá degi. Á vef Landlæknis er greint frá því að fjórtán einstaklingar á fimmtugs og sextugsaldri hafi verið greindir hér á landi með kórónaveiruna, sem veldur COVID-19 sjúkdómi, en á Mbl.is í morgun eru þeir sagðir 16. Í öllum tilfellum eru tilfellin staðsett á Höfuðborgarsvæðinu og yfir þrjúhundruð einstaklingar eru í sóttkví. Engin merki eru um það að kórónuveiran hafi borist milli manna hér á landi en flest smitin eru rakin til Ítalíu, sem er eitt þeirra landa sem skilgreint er með mikla smitáhættu.
Önnur lönd eru Kína Suður-Kórea og Íran og ráðleggur sóttvarnalæknir fólki að ferðast ekki að nauðsynjalausu til ofangreindra landa. Einstaklingar sem hafa verið á þessum svæðum eru beðnir um að vera í sóttkví í 14 daga, hafi þeir gist á þar til skemmri eða lengri tíma.
Þau lönd sem falla undir skilgreiningu sem svæði með litla smitáhættu eru Japan, Singapúr, Hong Kong og Tenerife. Einstaklingar sem eru á þeim svæðum eða hafa verið þar á undanförnum dögum eru beðnir um að gæta ítrasta hreinlætis og huga að sýkingavörnum. Það innifelur meðal annars að þvo hendur oft og vel, hafa klút fyrir andlitið til að hnerra eða hósta í eða í olnbogabót og nota handspritt. Handþvottur, það að forðast að snerta augu, nef og munn og það að forðast að heilsa með handabandi eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum, segir á vef Landlæknis. Þeir sem koma frá ofangreindum svæðum og finna fyrir veikindum innan 14 daga frá heimsókn er bent á að tilkynna það í síma 1700 og fara yfir ferðasögu. Erlendir ríkisborgarar þurfa hins vegar ekki að fara í sóttkví þar sem að talið er að þeir séu ólíklegri að vera í nánu samneyti við marga einstaklinga og auk þess dvelja þeir yfirleitt stutt á Íslandi. Smithætta frá þeim er því talin verulega minni en frá Íslendingum sem hér búa.
Hvetur fólk til að halda ró sinni
Örn Ragnarsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSN, segir að fundað hafi verið með sóttvarnalækni undanfarnar vikur og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ásamt lögreglustjóra og almannavörnum á Norðurlandi vestra og aðgerðastjórn hafi að hluta til verið virkjuð. „Eftir því sem á líður, og þetta dreifist, því ofar færum við okkur upp á skaftið með áætlanir okkar. Við eru með viðbragðsáætlanir, bæði stofnunin hér og almannavarnir vegna þessa og upplýsum alla aðila sem við teljum að þurfi svo allir séu klárir með sín hlutverk.“
Varðandi einangrun og sóttkví segir Örn að um heimahús verði að ræða en í skoðun er að útvega annað húsnæði bæði í Skagafirði og Húnavatnssýslum ef á þarf að halda. „Við vinnum eftir áætlunum samkvæmt ráðleggingum og í samvinnu við sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sem að stjórnar aðgerðum. Á heimasíðu landlæknis eru góðar upplýsingar sem gott er að fólk kynnir sér,“ segir Örn.
Örn hvetur fólk til að halda ró sinni en ef einhver finnur fyrir flensueinkennum og tengjast á einhvern hátt áhættusvæðum sem tilgrein eru eða einhver tengsl eru við einstakling með staðfesta eða grunaða sýkingu, þarf að skoða það. „En það eru flensur hér í gangi og ef ekki eru nein tengsl við þessa covid smitun þá lítum við á það sem venjulega pest. Það hjálpar engum að vera með læti en gott að fylgjast með á landlaeknir.is. Þar eru nýjustu upplýsingarnar.“
Upplýsingateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vinnur nú að því að koma upplýsingum um COVID-19 til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa sem t.d. aldraðir einstaklingar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma teljast til. Verður það gert í samráði við sjúklingasamtök, fagfélög og hagsmunahópa þessara einstaklinga.