Enn óvissu­stig vegna snjóflóðahættu á Norður­landi

Veðrið var orðið skaplegt í Hjaltadalnum nú um miðjan dag. Fyrstu níu myndirnar í  myndasyrpunni eru frá því í gær og síðari myndirnar frá í dag en þær tók Sigríður Björnsdóttir. Allra síðustu myndirnar eru síðan frá Molastöðum í Fljótum en þær tók Halldór Gunnar Hálfdansson í dag. Síðasta myndin er af suður inngangnum í fjárhúsin. „Ég þarf yfirleitt að teygja mig upp í þetta ljós sem sést fyrir ofan dyrnar,“ segir Halldór.
Veðrið var orðið skaplegt í Hjaltadalnum nú um miðjan dag. Fyrstu níu myndirnar í myndasyrpunni eru frá því í gær og síðari myndirnar frá í dag en þær tók Sigríður Björnsdóttir. Allra síðustu myndirnar eru síðan frá Molastöðum í Fljótum en þær tók Halldór Gunnar Hálfdansson í dag. Síðasta myndin er af suður inngangnum í fjárhúsin. „Ég þarf yfirleitt að teygja mig upp í þetta ljós sem sést fyrir ofan dyrnar,“ segir Halldór.

Veður hefur verið með versta móti í Skagafirði síðustu daga þó ekki hafi það náð hæðum óveðranna sem dundu yfir síðasta vetur. Heldur hefur nú dregið úr vindi og ofankomu en veður hefur verið vont nánast alla vikuna þó færð hafi fyrst farið að spillast á miðvikudag. Nokkur snjóflóð hafa fallið Norðanlands og var þjóðvegi 1 yfir Öxnadalsheiði til dæmis lokað þar sem flóð hafa fallið á hann og þá féll flóð fyrir ofan bæinn Smiðsgerði í Kolbeinsdal í Skagafirði. Það flóð féll að líkindum í gærmorgun eða í fyrrinótt.

Smiðsgerði er rétt innan við Sleitustaði en mbl.is hafði í gær eftir ábúandanum, Jóni Árna Friðjónssyni, að hann óttaðist að flóð hefðu fallið ansi víða í hlíðinni. „En það hef­ur alla vega farið ein­hver spýja hérna niður og tekið ... báru­járnsskúr, sem var nú ekki ýkja merki­leg bygg­ing, svo­lítið hér fyr­ir inn­an bæ­inn,“ seg­ir Jón Árni. „Það er búið að vera skíta­veður og mikið fann­fergi. Það er ekki óal­gengt að það falli snjóflóð úr þess­um fjöll­um, svona á heild­ina litið, þetta er nú lang­ur fjall­g­arður.“

Í frétt RÚV nú í hádeginu, af sama atburði, kemur fram að umræddur skúr hafi staðið um 250 metra ofan við bæinn Smiðsgerði en líkur eru taldar á því að í það minnsta þrjú hross hafi drepist í flóðinu.

Miklum snjó hefur kyngt niður síðustu daga og töluverð ófærð á Tröllaskaga og nágrenni. Þannig hafa vegirnir yfir Vatnsskarð og Þverárfjall oft verið ófærir (Þverárfjallsvegur reyndar í sjö daga samfleytt), sömuleiðis hefur Siglufjarðarvegur verið mikið lokaður og þá hefur Öxnadalsheiði verið lokuð nú um helgina og er enn lokuð. Þrjú snjóflóð féllu á veginn og lokuðu honum sl. föstudagskvöld en þá var rutt í gegn og vegfarendum, sem voru stopp, hjálpað. Var veginum lokað í framhaldinu, enda aðstæður ótryggar. Fjórða flóðið féll svo nú um helgina á sama stað og hin fyrri og er sagt stórt. Ófært er yfir Þverárfjall.

Enn er óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi vestra en samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar er reiknað með skaplegra veðri á Tröllaskagasvæðinu næstu daga en þá dregur úr vindi og ofankomu.

Veður er nú skaplegt á Sauðárkróki eftir dimmu, drunga og éljagang síðustu daga í norðanstrekkingi. Að sögn Halldórs Gunnars Hálfdanssonar á Molastöðum í Fljótum er enn hvassviðri þar og komnir háir skaflar. Aðspurður hvort snjólétt hefði verið í Fljótum segir hann: „Já, við vorum farin að halda að við myndum sleppa þennan vetur.“ 

„Hér hefur snjóað nánast stanslaust í fimm sólarhringa í annars góðu veðri, logni og 1-2 gráðu frosti. Hér er því mikið fannfergi þó ekki sé snjókoma eins og er,“ segir Sigríður Björnsdóttir, bóndi og dýralæknir á Kálfsstöðum í Hjaltadal, en hún tók myndirnar, sem fylgja fréttinni, nú um helgina. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir