Er búin að læra leikmannaskrá Tindastóls samviskusamlega
María Neves tók nýverið við starfi sem deildarstjóri þróunar, miðlunar og menningar hjá sveitarfélaginu Skagafirði. Feykir hafði samband við Maríu og fékk aðeins að kynnast þessum nýja innflytjanda á Sauðárkróki. Hún var nefnilega innflutt frá Portúgal þegar hún var ungabarn eins og hún kemst sjálf að orði, alin upp á Vestfjörðum þar sem hún bjó til 16 ára aldurs. Suðvesturhornið tók síðan við af Vestfjörðunum þar sem hún bjó lengst af á Akranesi eða þangað til í fyrra þegar hún fékk frábært atvinnutækifæri á Akureyri. „Þá seldum við hjónin íbúðina okkar, settum búslóðina í kassa, allt upp í bíl og brunuðum norður.“ Frá Akureyri lá síðan leiðin á Sauðárkrók í lok apríl á þessu ári og líkar þeim vel.