Er nafli alheimsins í Skagafirði?

Útgáfu nýjustu bókarinnar um Nikký fagnað. Ólöf Rún systir Brynju, henni á hægri hönd, þá pabbi hennar og mamma Skúli Br. Steinþórsson og Ólöf Sigurðardóttir.
Útgáfu nýjustu bókarinnar um Nikký fagnað. Ólöf Rún systir Brynju, henni á hægri hönd, þá pabbi hennar og mamma Skúli Br. Steinþórsson og Ólöf Sigurðardóttir.

Rithöfundurinn Brynja Sif Skúladóttir hefur skrifað sögur um Nikký sem nú er orðin orðin 12 ára gömul og ætlar ein til Sviss þar sem föðurfjölskylda hennar vinnur við stóran sirkus. Bókin er sjálfstætt framhald af bókinni um Nikký og slóð hvítu fjaðranna og verður eflaust spennandi kostur í jólapakkana þessi jólin. Brynja Sif rekur ættir sínar í Skagafjörðinn og segir að pabbi hennar, Skúli Br. Steinþórsson, hafi sagt að nafli alheimsins væri þar og þess vegna var hún send í sveit í Skagafjörð. Feykir fékk Brynju til að segja frá sveitinni, Nikký og sjálfri sér í Sviss. 

Birta er yfir æskuminningum mínum úr Skagafirði. Á harðastökki á Grána gamla út ásinn á eftir stóðinu með vindinn í fangið og aðeins eitt sem ég þurfti að gera, það var að hanga á baki.

Sólin skein alltaf í Litla Dal á sumrin. Mér fannst furðulegt framan af, að það skyldi alltaf vera rigning á Króknum. Ég var 5 ára þegar ég fór fyrst í sveit í Litla Dal, sem útskýrir að það tók mig einhver ár að átta mig á því að það var ekki alltaf vont veður á Sauðarkróki heldur var farið í kaupstaðinn þegar það rigndi. Þó að gleði og áhyggjuleysi æskunnar sé í forgrunni í minningunni um sveitina í Skagafirði þá þýðir það ekki að ég hafi ekki tekist á við erfiðar tilfinningar, eins og heimþrá og reiði og sorg yfir dýrum sem þurfti að fella. Ekki leið það sumar af þeim níu sumrum sem ég var í Litla Dal sem ég lagði ekki á ráðin um að strjúka suður en tilhlökkunin var alltaf jafn mikil á hverju vori, ég gat ekki beðið eftir að komast í sveitina. Ég var skapmikil og frek og fannst erfitt að taka leiðbeiningum. En sveitin og þau verkefni sem maður tók þátt í voru mjög þroskandi. Þegar reka þurfti eina kú, fjórar kvígur og einn kálf á milli hólfa og kýrin gekk í rólegheitum rétta leið, kvígurnar fjórar hentust út um túnið og kálfurinn stökk í aðra átt, þá komst maður fljótt að því að hoppa og öskra myndi ekki leysa málið.

Í sjómann við Bjarna Ben

Frelsið og ævintýrin sem ég upplifði í sveitinni eru fjársjóður sem ég bý að. Mér var treyst fyrir hlutunum og tók þátt í því sem þurfti að gera, sama hvort það var að skipta um traktorsdekk, sækja stóðið, hlaða böggum eða moka út úr fjárhúsunum. Þegar ég kom í skólann aftur á haustin var ég nautsterk, ég fór í sjómann við alla strákana í bekknum mínum í Flataskóla í Garðabæ, Herbert náði jafntefli við mig en ég sigraði alla hina og líka Bjarna Ben.

Þegar ég skrifa barnabækur nýti ég mér tilfinningar og upplifanir úr sveitinni sem voru hluti af æsku minni þó að sögusvið og atburðir séu skáldaðir. Ef ég ætti að nefna dæmi um minningar sem ég hef nýtt mér í sögurnar mínar detta mér tvær í hug. Þegar ég var ellefu ára fór ég eitt sinn með Gísla bónda í heimsókn til Jóa í Stapa. Hann var einbúi og bjó ásamt fjórum hvítum hundum í Stapa. Jói var sveipaður dulúð og ég bar óttablandna virðingu fyrir honum. Hann gat látið hvítu hundana sína stökkva upp í hnakkinn hjá sér sem mér fannst töfrum líkast. Hann var mikill hagyrðingur og fór með vísur í tíma og ótíma. Gísli átti eitthvert erindi við Jóa og okkur var boðið inn í kaffi. Ég settist við eldhúsborðið og horfði forvitin í kring um mig. Jói kom með kaffibolla og fyllti bollann minn af biksvörtu kaffi áður en ég gat afþakkað, hann muldraði eitthvað um að hann ætti enga mjólk. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja að ég drykki ekki kaffi, ég vildi alls ekki móðga Jóa. Ég leyfði kaffinu að kólna aðeins og teygði mig síðan í sykurmolakerið og setti þrjá stóra mola ofan í bollann, andaði djúpt og þambaði kaffið í einum rykk. Um leið og ég lagði frá mér bollann var Jói mættur með könnuna og ætlaði að fylla bollann hjá mér aftur. Mér rétt tókst að stynja upp:           

            – Nei takk, ekki meira kaffi 

Í bókunum um Nikký eru draumar nokkuð áberandi. Enda þegar ég var barn voru draumar eitthvað sem ég upplifði að gátu haft þýðingu. Ég var þrettán ára síðasta sumarið sem ég var í Litla Dal. Þegar ég var komin í bæinn um haustið dreymdi mig að Gísli bóndi kæmi til mín og segðist ætla að gefa mér folald. Draumurinn var mjög raunverulegur og ég get enn munað vonbrigðin þegar ég vaknaði. Rúmri viku seinna hringdi Gísli í mig og sagðist ætla að gefa mér folald fyrir vel unnin störf í sveitinni. Folaldið skýrði ég Draum. Fjórum árum seinna þegar Draumur var kominn á tamningaraldur dreymdi mig aftur að Gísli kæmi til mín og segði við mig að ég skyldi frumtemja trippið án þess að nota hnakk. Mér fundust þetta nú furðulegar leiðbeiningar en ákvað að fara eftir þessu og gekk tamningin ljómandi vel.

 

Ég er búsett í Sviss ásamt eiginmanni mínum, Jan Triebel og yngstu dóttur okkar, Angelíku Ósk, það er mjög gott að búa hér. Fólkið er vinsamlegt og náttúran er falleg með Alpana innan seilingar. Sviss jafnast þó ekki á við Ísland, af því að þar eru rætur mínar.

Það er bara einn sem ræður yfir þinni sögu

Ég er að skrifa ásamt því að vera með verkefni í skólum sem heitir "Ævintýrið í þér" ég byrjaði með það í haust. Í verkefninu þjálfa ég skólabörn í 5. og 6. bekk í sköpun. Ég hjálpa þeim að tengja við sitt eigið ímyndunarafl, skrifa sögur, skapa persónur og finna máttinn í því að það er bara einn sem ræður yfir þinni sögu og það ert þú. Þegar ég segi börnunum sögur frá æsku minni á Íslandi og hvernig ég nota tilfinningar og upplifanir frá minni æsku og því sem ég upplifi frá degi til dags þegar ég skrifa, finna þau að það mega þau líka.

Nikký og skuggaþjófurinn

Ef ég á að lýsa nýju bókinni, "Nikký og skuggaþjófurinn", þá er þetta einmitt saga sem ég hefði valið mér að lesa þegar ég var barn. Aðalpersónan, Nikký er skapmikil og hugrökk stelpa sem er auðvelt að tengja við. Hún á rætur sínar að rekja til tveggja ólíkra heima. Reykjavíkur nútímans og sirkusfjölskyldu frá Sviss. Einstaka hæfileika sína til að ná sambandi við trén hefur hún frá sirkusdrottningunni Mandönu ömmu sinni. Nikký og vinir hennar sogast inn í hættulega atburðarás þar sem takast á ill öfl og kraftar sem tengjast Lagarfljótsorminum og skuggatrénu.

Áður birst í 48. tbl. Feykis.

Fleiri fréttir