Erfiðir mótherjar Tindastólsliðanna í VÍS BIKARNUM

Það verður kannski ekki sagt að lið Tindastóls hafi dottið í lukkupottinn þegar dregið var í VÍS BIKARNUM í körfuknattleik í höfuðstöðvum VÍS í gær. Níu leikir verða spilaðir í 32 liða úrslitum og þar af tvær innbyrðisviðureignir úrvalsdeildarliða. Önnur þeirra verður í Síkinu en Stólarnir fá lið Hauka í heimsókn. Stólastúlkur þurfa að skjótast í Reykjanesbæ í 16 liða úrslitum þar sem úrvalsdeildarlið Keflavíkur bíður þeirra. Ætli VÍS bjóði engar tryggingar fyrir svona drætti?

Ekki er búið að raða leikjunum á daga en ljóst að 16 liða úrslit kvenna fara fram dagana 29.-30. október og 32 liða úrslit karla verða dagana 16.-17. október.

Einnig var dregið í 16 liða úrslit karla og ljóst að ef lið Tindastóls hefur betur gegn Haukaliðinu í 32 liða úrslitum þá er næsta verkefni að mæta sigurvegurum í viðureign Þróttar Vogum eða Njarðvíkinga. Leikirnir í 16 liða úrslitum fara fram dagana 30.-31. október.

Valdir leikir í VÍS bikarnum verða sýndir á RÚV í vetur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir