Evelyn Ýr hlýtur viðurkenningu frá Markaðsstofu Norðurlands

Frá afhendingu viðurkenninganna. Mynd: northiceland.is
Frá afhendingu viðurkenninganna. Mynd: northiceland.is

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin í Hörgársveit og Dalvíkurbyggð í gær, miðvikudaginn 30. október. Tókst hátíðin í alla staði vel, að því er segir á vef Markaðsstofu Norðurlands. Venju samkvæmt voru veittar viðurkenningar til aðila sem vakið hafa eftirtekt í ferðaþjónustu í landshlutanum. Viðurkenningarnar eru þrjár; sproti ársins, fyrirtæki ársins og störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Evelyn Ýr Kuhne á Lýtingsstöðum í Skagafirði hlaut að þessu sinni viðurkenninguna fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi en hana fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í umsögn á vef Markaðsstofu segir: „Á Lýtingsstöðum hefur Evelyn, ásamt fjölskyldu sinni, byggt fyrirtækið sitt upp í 20 ár og stöðugt unnið að því að bæta þjónustuna við ferðamenn. Hestaferðir og hestasýningar eru hennar aðalsmerki en einnig er boðið upp á gistingu og skoðunarferðir með leiðsögn um torfhesthúsið sem byggt var upp fyrir örfáum árum. Aðstaðan á Lýtingsstöðum hefur verið byggð upp til þess að taka á móti hópum og er meðal annars boðið upp á hljóðleiðsögn. Í torfhesthúsinu sem byggt var skv. gömlum hefðum hefur verið komið fyrir búnaði sem sýnir hvernig líf hestamannsins var fyrr á árum og hefur Horses and heritage pakki hennar þar sem boðið er upp á fræðslu um þetta vakið mikla athygli. Evelyn hefur verið öflug í að taka á móti fjölmiðlum og skapað þannig góða athygli á svæðinu. Hún er einnig drífandi fyrir fólk í ferðaþjónustu í sínu nærumhverfi, hefur stutt við samstarf á milli þess og tryggt þátttöku annarra í hinum ýmsum verkefnum. Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði hefur notið góðs af kröftum hennar um árabil og mun væntanlega áfram, enda er Evelyn stöðugt að kynna sér nýjungar og sækja fræðslu sem kemur bæði henni og kollegum til góða.  Takk fyrir okkur, Evelyn!“

Viðurkenninguna Sproti ársins fengu Sjóböðin á Húsavík en viðurkenningin er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ektafiskur og Hvalaskoðunin á Hauganesi voru valin Fyrirtæki ársins en sú viðurkenning er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir