Fain frábær í flottum sigri á Njarðvík
Tindastóll fékk Njarðvík í heimsókn í Síkið í kvöld en fyrirfram var reiknað með hörkurimmu og það var einmitt það sem áhorfendur fengu fyrir peninginn - æsispennandi baráttuleik þar sem heimamenn voru yfir frá fyrstu til síðustu mínútu og þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi með seiglu náð muninum niður í eitt stig í fjórða leikhluta reyndust Stólarnir sterkari að þessu sinni og unnu sanngjarnan sigur, 78-65.
Stólarnir komu baráttuglaðir til leiks og þvinguðu gestina til að gera hver mistökin af öðrum og það var virkilega gaman að sjá til heimamanna sem virkuðu fullir sjálfstrausts. Stigaskorið skiptist nokkuð jafnt milli manna í fyrri hálfleik en þó var það Helgi Rafn sem var duglegastur í skorinu, var með 9 stig að fyrri hálfleik loknum og þar á meðal 3ja stiga skot sem frá þeim bæjardyrum er safngripur. Staðan að fyrsta leikhluta loknum var 19-10 og þrátt fyrir að vera mun sterkari aðilinn í öðrum leikhluta náðu Stólarnir ekki að nýta sér yfirburðina og í hálfleik var staðan 33-24.
Leikstjórnendur Njarðvíkinga voru báðir með 3 villur að loknum fyrri hálfleik og þá voru Helgi Rafn og Kitanovic búnir að safna villum fyrir heimamenn.
Síðari hálfleikur var jafn og spennandi og Njarðvíkingar náðu muninum niður í 3 stig um miðjan þriðja leikhluta, 38-35, eftir frekar fálmkenndan sóknarleik heimamanna sem virkuðu kærulausir og misstu boltann hvað eftir annað úr höndunum. Loks tók Hayward Fain af skarið, kappinn skoraði hverja körfuna af annarri í öllum regnbogans litum og var magnaður í vörninni að auki þar sem hann hirti hvert frákastið af öðru. Fyrir síðasta leikhluta var munurinn orðinn 10 stig, 52-42.
Njarðvíkingar, sem voru alls ekki að spila vel, eiga marga magnaða körfuboltamenn og því alltaf hætta á að þeir næðu að skjóta sig inn í leikinn. Magnús Gunnarsson hafði til að mynda verið afleitur í leiknum en hann steig upp og stjórnaði leik gestanna í fjórða leikhluta og gerði m.a. tvær 3ja stiga körfur. Þegar tæpar 5 mínútur voru eftir af leiknum minnkaði hann muninn í 58-57 og fór nú um margan stuðningsmann Tindastóls. Enn kom Fain til bjargar og gerði næstu 4 stigin en Njarðvíkingar settu niður þrist og staðan 62-60. Nú fór Kitanovic loks að rumska og hann settir niður nokkra bolta og í sama mund lét Smith á sér kræla fyrir gestina og meðal annars minnkaði hann muninn í 68-65 með troðslu þegar mínúta var eftir. Kita slökkti vonir Njarðvíkinga þegar hann lagði boltann í körfuna og fékk að auki víti og það voru Stólarnir sem skoruðu 10 síðustu stigin í leiknum og unnu mikilvægan sigur, 78-65.
Það var gaman að sjá til Stólanna í kvöld. Leikmenn voru baráttuglaðir og pressuðu stíft og lokuðu á Njarðvíkinga, þeir voru sneggri og skemmtilegri. Fain var alveg óður í síðari hálfleik, kappinn gerði 26 stig, tók 15 fráköst og dreif liðið áfram þegar á þurfti að halda. Varnarleikur Tindastólsmanna var yfirleitt flottur og magnað að halda Njarðvíkingum í 65 stigum og aðeins 24 í fyrri hálfleik. Sóknin gekk ekki alveg eins vel fyrir sig og í raun hefðu Stólarnir átt að vera búnir að kveðja Njarðvíkinga fyrir hlé. Kita steig upp í lok leiks og gerði þá nokkrar mikilvægar körfur en annars lék liðið í heildina vel.
Stig Tindastóls gerðu: Fain 26, Rikki 12, Kita 11, Helgi Rafn 9, Cunningham 6, Svavar 5, Helgi Freyr 5, Hreinsi 3 og Ingvi 1.
Tindastóll hefur því náð í 8 stig að lokinni fyrri umferð mótsins sem verður að teljast gott miðað við að fyrstu fimm leikirnir töpuðust. Fyrsti heimaleikurinn á nýju ári er 6. janúar en þá kemur lið KFÍ í heimsókn.