Ferð upp á von en ekki óvon
Þuríður Harpa Sigurðardóttir lenti í alvarlegu hestaslysi vorið 2007. með þeim afleiðingum að hún lamaðist frá bringspölum og niður. Þuríður fer nú síðsumars til Delhí á Indlandi þar sem hún hyggst leita bótar meina sinna. Meðferð þessi mun að öllu óbreyttu kosta Þuríði 25 – 30 milljónir og hafa vinir hennar í samráði við Þuríði hrint af stað heilmikilli söfnun henni til handa. 1. hluti söfnunarinnar fer fram í kvöld en þá verður haldið glæsilegt styrktarkvöld fyrir Þuríði Hörpu í Reiðhöllinni Svaðastaðir á Sauðárkróki.
Þuríður leggur áherslu á að ferð hennar til Indlands sé upp á von en ekki óvon. - Ég fer af því ég er viss um að fá eitthvað til baka og mér er sama þó það verði kannski ekki annað en hreyfa tærnar, það er þess virði. Ég fer af því að ég er viss um að ryðja braut fyrir aðra hér á landi. Hugsið ykkur ef ég get sýnt fram á að þessi meðferð skilar mér, lamaðri manneskjunni einhverju til baka hvers virði það verður fyrir aðra sem eins er ástatt fyrir hér á Íslandi og ekki bara fyrir lamaða heldur líka fyrir fjölskyldurnar og vinina sem standa að lömuðum einstaklingi. Þjóðfélagið í heild, segir Þuríður og leggur þunga áherslu á orð sín. Hún heldur áfram; -Bráðum legg ég upp í ferðalag, ferðalag sem varðað er vonum og óskum. Ég óska þess að ég fái aftur kraft í neðri helming líkamans. Ég óska þess að ég geti einhverntíman aftur náð í kaffibolla upp í skáp, að það að ná í ostinn í ísskápinn verði aftur einfalt, að finna að ég þurfi á salernið og geta notað það eins og áður, að geta gengið úti í góða veðrinu á sumri eða vetri. Að njóta þess að standa í sturtunni og finna vatnið streyma niður bakið og fæturna. Það er svo margt sem ég vildi geta gert eins og áður, helst vildi ég fá aftur líf mitt eins og það var, en ég geri mér grein fyrir að það er harla ólíklegt að nokkuð verði eins og áður.
Skemmtunin hefst klukkan 20:30 í kvöld og er miðaverð að lágmarki krónur 2000. Fram koma hljómsveitin Von, Álftagerðisbræður. Karlakórinn Heimir, Fúsaleg Helgi og Edda Borg ásamt hestamönnum sem standa fyrir glæsilegri hestasýningum.
Söfnunarreikningur fyrir Þuríði Hörpu er. 161 -15 – 550165 kt 010467-5439
Og 1125 -05- 250067 kt 010467-5439
Þuríður Harpa var í viðtali í Ísland í bítið í morgun, hægt er að hlusta á viðtalið hér