Ferðasaga: Gönguferð með Ferðafélagi Ísland um Friðland að Fjallabaki - Græni hryggur og Hattver
Róbert Daníel Jónsson og Erna Björg Jónmundsdóttir á Blönduósi hafa verið dugleg við það að fara í göngur víðsvegar um landið sem og erlendis. Blaðamaður Feykis hafði samband við þau og forvitnaðist um göngu sem þau fóru í á dögunum um Friðlandið að Fjallabaki.
„Fyrir ári síðan var ég að skoða Facebook og sá að frændi minn var í ferð með Ferðafélagi Íslands - Græni hryggur og Hattver. Þegar ég sá myndirnar hjá honum þá var ekki aftur snúið ég ætlaði mér í þessa ferð, þvílík fegurð. Við hjónum kynntum þetta fyrir vinahóp okkar frá Bolungarvík sem hafði nýlega komið úr góðri ferð með okkur á Hornströndum. Það þurfti ekki mikinn sannfæringarkraft til að fá hópinn til að sameinast og bóka sig í þessa ferð sumarið eftir. Það endaði svo að við fórum 10 saman vinir frá Bolungarvík en alls voru 20 í ferðinni með tveim fararstjórum,“ segir Róbert.
Fararstjóri í ferðinni er Örvar Þór Ólafsson, viðskiptafræðingur, en hann hefur verið leiðsögumaður að Fjallabaki fyrir FÍ síðan árið 2011 ásamt því að skipuleggja fjallgöngur á Íslandi og erlendis með bróður sínum, Haraldi Erni Ólafssyni, en saman standa þeir á bak við Fjallafélagið. Aðstoðarfararstjóri ferðarinnar er Guðrún Árdís Össurardóttir, framhaldsskólakennari og eiginkona Örvars. ,,Þau hjónin gerðu þessa ferð ennþá betri að öllu leiti og eiga mikið hrós skilið,“ segir Róbert. Þess má geta að faðir Örvars er Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, sem varð fyrstur til að skipuleggja ferðir um þessar slóðir. Ólafur skrifaði árbók Ferðafélagsins árið 2010 um friðlandið að Fjallabaki. Eftir það fór hann með hópa í skipulagðar ferðir þangað. Aðstoðarfararstjóri í þeim ferðum var sonur hans, Örvar Þór Ólafsson. Nú hefur Örvar tekið við af föður sínum.
Ferðin tók þrjá daga og var gengið með allt á bakinu en gist er í Hattveri í Jökulgili. Svæðið er í verndarflokki og unnið er að því að koma því á heimsminjaskrá. Göngufólk þræðir sig eftir mjóum hryggjum, giljum og upplifir náttúruperlur á borð við Græna hrygg, Þrengslin, Hamragilin bæði og Háu hveri. ,,Maður sá enga aðra göngumenn á þessu svæði enda ekki margir sem fara um það,“ segir Róbert.
,,Fyrir svona ferð þarf maður að vera vel undirbúin líkamlega og einnig þarf að skipuleggja vel hvað fer í bakpokann þar sem maður þarf að bera allt á bakinu. Mér fannst sá undirbúningur ekki síður skemmtilegur en gangan sjálf,“ segir Róbert. Ferðin byrjaði í Landmannalaugum föstudaginn 20. júlí kl. 12:00 þar sem hópurinn kom saman við pallinn á skálavarðaskálanum og hausatalning fór fram til að athuga hvort allir væru mættir. Örvar fór aðeins yfir daginn áður en lagt var af stað eftir hópmyndatöku. Örvar var með ákveðinn öryggisbúnað og var honum skipt á milli göngumanna á göngunni en hann samanstóð af: línu ef vað yrði erfitt í jökulánni, gervihnattasíma, talstöð, sjúkragögnum. Svo má ekki gleyma skóflunni sem var notuð í Hattveri fyrir salernisferðir ef gera þyrfti númer tvö.
,,Gangan hófst í ágætis veðri þó það væri létt úrkoma í Landmannalaugum, fyrst var gengin hin hefbundna leið um Laugaveginn, þ.e. um Laugahraun, Brennisteinsöldu og upp að Stórahver. Þegar við nálguðumst Stórhver var komin mikil þoka og rigning og þurftu göngumenn að passa vel að blotna ekki og einnig að rigningin næði ekki til búnaðarins. Eftir stutt nestisstopp við Stórahver beygðum við hins vegar út af Laugaveginum og gengum í átt að Jökulgili eftirhryggjum á milli Stóra og Litla Hamragils. Þar létti til þokunni og var komið ágætis veður og útsýnið þegar við gengum niður í Jökulgilið var eitthvað sem maður gleymir ekki. Í botni gilsins héldum við áleiðis í náttstað í Hattveri, þar tjölduðum við, borðuðum kvöldmat og héldum smá kvöldvöku áður en við skriðum inn í tjald og sofnuðum eftir erfiðan en góðan dag,“ segir Róbert.
,,Laugardaginn 21. júlí vöknuðum við eftir góðan nætursvefn. Ég sef aldrei betur en í svona göngum og hvað þá í svona umhverfi þar sem maður heyrir bara í jökulánni og einstaka hrotum í þreyttum göngufélögum. Ég og Erna hituðum okkur góðan hafragraut og borðuðum vel fyrir daginn framundan. Þennan dag þurfti aðeins og ganga með dagpoka. Veðrið var mjög gott þennan dag. Eftir morgunmat og fór hópurinn að undirbúa daginn og Örvar fór aðeins yfir hvað væri framundan. Við byrjuðum á að vaða yfir Jökulgilskvísl og héldum inn í Dalbotn. Kvíslin var pínu straumhörð en vatnshæð var vel viðráðanleg. Inni í Dalbotni fetuðum við okkur upp Uppgönguhrygg og þræddum okkur að norðurjaðri Torfajökuls. Þverbeygðum til baka í átt að Jökulgili, niður með Sveinsgilskvísl að vestan þar til komið var á Hrygginn milli gilja. Þar biðu okkar Græni hryggurinn og Kanilhryggur. Þvíllíkt náttúruundur sem þessir hryggir eru. Við stoppuðum í góðan tíma til að njóta og skoða þetta svæði, svakalega litaveisla. Ég sem áhugaljósmyndari gat varla farið þaðan, það þurfti nánast að draga mig í burtu. Það voru sáttir gönguvinir sem gengu svo „heimleiðis“ í átt að Hattveri. Þegar við vorum alveg að vera komin að Hattveri þá komum við aftur að Jökulgilskvísl en núna hafði vaxið vatnsmagnið í henni töluvert. Þannig að við Örvar óðum fyrstir yfir til að kanna vaðið sem varð svo að við strengdum öryggislínu yfir sem haldið var í sitthvorum bakka árinnar. Það gekk mjög vel að koma öllum yfir nema ein vinkonan mín ákvað að lyfta fótum óþarflega mikið á leið sinni yfir með þeim afleiðingum að hún datt á bakið í ánna. Ég náði að hlaupa út í að henni þar sem hú hékk á línunni og reysa hana upp og hjálpa henni í land. Hún varð öll gegn blaut eins og gefur að skilja en búnaðurinn í bakbokanum slapp vel. Mikið gert grín að þessu sem eftir var ferðar enda fór allt saman vel. Allir svo sáttir með daginn þegar við komum í Hattver, mikið hlegið og spjallað saman meðan kvöldmatur var undirbúinn. Hver og einn eldaði sinn mat á sínum litla primus. Mikill metingur var í hópnum hver væri að kokka bestu máltíðana. Eftir kvöldmat og kvöldvöku gengum við hjónin ásamt nokkrum úr hópnum upp að Hatti fyrir ofan tjalddbúðirnar og sjáum ekki eftir því. Glæsileg leið og gaman að skoða Hattinn. Eftir gönguferð var farið útivistarfullnægður í háttinn, það verður erfitt að toppa svona göngudag,“ segir Róbert.
,,Næsta morgun, sunnudaginn 22. júlí var veðrið áfram mjög gott. Dagurinn byrjaði á kjarngóðum morgunmat og síðan var allt tekið saman og pakkað í bakpokann en nú var heimferð. Gengum frá öllu eins og við komum að því og tókum allt með okkur til baka sem var ekki búið að borða. Nú var ferðinni heitið aftur í Landmannalaugar. Við þræddum upp langan og litríkan Uppgönguhrygg upp á Skalla (um 1.000 m. hæð). Uppgönguhryggur fékk algjöra topp einkunn, hann stóð upp úr að mínu mati í allri ferðinni. Glæsilegt svæði að ganga á hryggnum, langur, litríkur og erfiður fyrir lofthrædda. Við Skalla komum við á stikaða gönguleið sem vísaði okkur aftur í Landmannalaugar. Þetta er án efa eitt fegursta svæði Íslands, og það svæði sem við gengum svo ósnortið. Maður er ennþá að ná sér niður á jörðina eftir þessa frábæru ferð,“ segir Róbert að lokum.
Upplýsingar um ferðina má nálgast á vef Ferðafélaga Íslands:
Fleiri myndir úr ferðinni má sjá á Facebooksíðu Róberts:
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.