Fíkniefnaneysla í Litla-Skógi

Á fésbókarsíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra segir að aðkoman í Litla-Skógi á Sauðárkróki sl. föstudag hafi verið heldur óhugnarleg. Börn sem þar voru á ferð höfðu samband við lögreglu, þar sem spellvirki höfðu verið unnin á trjám og garðbekk í skóginum auk þess að ummerki um fíkniefnaneyslu og umbúðir með fíkniefnaleifum lágu á víð og dreif.

„Ljóst er að fíkniefnaneysla á landinu öllu hefur aukist og er neysla grunnskólabarna mikið áhyggjuefni. Lögreglan biður fólk um að vera vel á verði og tilkynna til lögreglu ef það býr yfir upplýsingum er tengjast spellvirkjum þessum eða fíkniefnum og neyslu þeirra. Farið er með upplýsingar sem berast sem trúnaðarmál og njóta tilkynnendur nafnleyndar. Rétt er að minna á að samfélagsábyrgðin er mikil og það getur reynst afdrifaríkt að liggja á upplýsingum. Fíkniefni eru dauðans alvara,“ segir lögreglan.

Fleiri fréttir