Finnur sofandi fólk og kúrir hjá því

Grétar Aspelund hefur verið kærður til lögreglu fyrir áreiti, sem vart á sér hliðstæðu í heiminum í dag. Grétar var kærður fyrir að setjast við hlið sofandi manns á stól og kúra hjá honum.

Forsaga málsins er sú að Grétari finnst afar gott að kúra hjá fólki og hefur svo verið í áratugi. Sveitungar hafa tekið þessu með stóískri ró enda vanir kúritilburðum Grétars í gegn um tíðina. Hefur hann t.d. verið þekktur fyrir það á böllum, að setjast við hlið fólks sem dáið hefur áfengisdauða og kúrt hjá því drykklanga stund. Grétar hefur einnig sótt talsvert í flugerðir þar sem hann hefur notað tækifærið þegar sessunautur hans sofnar, að halla sér upp að honum og kúra.

Þó sveitungar Grétars taki þessu vel, hefur hann annað slagið orðið fyrir aðkasti meðal ókunnugs fólks, en þó aldrei eins og nú, þegar hann var kærður af flugfarþega í London, sem var að bíða af sér töf á flugi.

Grétar var á leið til sonar síns í London þegar atvikið varð. Var hann að ganga í gegn um flugstöðina á Heathrow þegar hann sá sofandi farþega sem var að bíða eftir flugi. Grétar af gömlum vana, settist í næsta stól, hallaði sér upp að hinum sofandi manni og kúrði hjá honum allt þangað til maðurinn vaknaði af værum blundi. Skipti þá engum togum að maðurinn kallaði til öryggisverði og lagði fram kæru á Grétar fyrir áreiti á almannafæri.

Blessunarlega náðist að sjatla málin áður en til dómsvalda þurfti að koma og samþykkti Grétar að greiða manninum 100 pund í skaðabætur. Einnig var honum gert að fjárfesta í orkutöflum á staðnum. Hann mun dvelja yfir jólin hjá syni sínum í London þrátt fyrir þessi skakkaföll og er væntanlegur til landsins á milli jóla og nýárs

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir