Fisk Seafood fagnar rofi á 6.000 tonna múrnum
Vel hefur gengið hjá Fisk Seafood að draga fisk að landi og vinna í landvinnslu fyrirtækisins á Sauðárkróki en haldin veisla síðastliðinn föstudag af því tilefni. Fagnað var að búið er að vinna úr 6.000 tonnum af hráefni á kvótaárinu eða frá 1. september 2018. Á Facebooksíðu Fisk Seafood kemur fram að Friðbjörn Ásbjörnsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins og Þórólfur Gíslason stjórnarformaður fyrirtækisins hafi haldið stuttar tölur og færði Þórólfur svo fulltrúum starfsmannafélagsins þrjár milljónir króna að gjöf frá stjórn fyrirtækisins.
Feykir sagði frá því í byrjun mánaðarins að togarar fyrirtækisins Drangey og Málmey hefðu verið aflahæstu togarar febrúarmánaðar þar sem heildarafli Drangeyjar var 811,1 en Málmeyjan með heildarafla upp á 762,9 tonn.
Drangey landaði sl. mánudag 204 tonnum í Grundarfirði en aflann fékk skipið meðal annars á Jökuldýpi, Eldeyjarbanka og Eldeyjarbankakanti. Þá landaði Málmey á sama stað 203 tonnum í síðustu viku, og var uppistaðan ufsi. Aflann fékk skipið á miðunum suð-vestan við landið; Selvogsbanka, Tánni, Eldeyjarbanka og Jökuldýpi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.