Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar samþykkt
Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar 2015, ásamt þriggja ára áætlun 2016-2018, var samþykkt á fundi sveitarstjórnar á miðvikudag. Áætlunin gerir ráð fyrir að tekjur aukist um 38 milljónir króna frá upphaflegri fjárhagsáætlun ársins 2014 og að gjöld hækki um 44 milljónir króna.
Aukning gjalda skýrist að mestu leiti af launahækkunum. Niðurstaða fyrir fjármagnsliði er jákvæð um 53 milljónir en var áætluð 2014 um 62 milljónir. Veltufé frá rekstri er 88 milljónir króna eða rúm 10 prósent.
Í þriggja ára áætlun, fyrir árin 2016-18, er gert ráð fyrir eiginfærðum fjárfestingum að upphæð 150 milljónir króna. Gert er ráð fyrir lántöku upp á 110 milljónir króna en janframt verði að þessum árum greidd niður lán um 250 milljónir króna á því tímabili sem áætlunin nær til.
Í umræðum um áætlunina kom fram að hún hefði verið unnin af byggðarráði og hefði verið góð samvinna milli meirihluta og minnihluta um áherslur við fjárhagsáætlanagerð.
Í bókun sem forseti sveitarstjórnar lagði fram á fundinum segir m.a.:
„Sveitarstjórn fagnar því að upp sé að renna tími aukinna framkvæmda á Blönduósi eftir lægð undanfarinn ára eða frá því að byggingu sundlaugarinnar á Blönduósi lauk. Slíkt sé aðeins mögulegt vegna ábyrgrar fjármálastjórnar og hagræðingar í rekstri undanfarin ár sem og niðurgreiðslu lána sem hefur lækkað vaxtabyrði sveitarfélagsins verulega.“
J-listinn lagði fram eftirfarandi bókun:
„Unnið hefur verið að fjárhagsáætlun 2015 í samstarfi meirihluta og minnihluta. Undirbúningur og gagnavinna hefur borið nokkur merki þeirra hræringa sem verið hafa í starfsmannamálum á skrifstofu undangengin misseri og væri gott ef festa kæmist þar á. Teflt er á tæpasta vað í fjárfestingum og hefði kannski átt að lækka skuldir frekar en gert er. Stofnanir bæjarins fá þó aukið rými til rekstrar eftir undangengin aðhaldstíma og er það vel. Megi árið 2015 verða sveitarfélaginu til farsældar.”
