Fjárhagsáætlun Húnaþings vestra skilar 5,2 millj. kr. tekjuafgangi Aðalsjóðs

Síðari umræða fjárhagsáætlunar vegna ársins 2011 fyrir sveitarsjóð og undirfyrirtæki í sveitarstjórn Húnaþings vestra fór fram í gær og kynntu sveitarstjóri og skrifstofustjóri þær breytingar  sem orðið hafa á áætluninni milli umræðna. Áætlunin er lögð fram með 5,2 millj. kr. tekjuafgangi af rekstri Aðalsjóðs en 24,7 milljóna kr. halla af rekstri A-hluta samstæðunnar.

Fram kemur í fundargerð að hörmuleg áhrif óhóflegrar skuldsetningar fyrirtækja, heimila og sveitarfélaga blasi nú hvarvetna við og því er nauðsynlegt að fram komi að núverandi sveitarstjórn hyggst ekki feta þá braut heldur reyna af fremsta megni að lækka skuldir Húnaþings vestra. Fulltrúar í meirihluta og minnihluta sveitarstjórnar unnu saman að gerð fjárhagsáætlunarinnar fyrir komandi rekstrarár ásamt sveitarstjóra og skrifstofustjóra.

Í fjárhagsáætlunargerðinni hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra haft það markmið að leiðarljósi að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins og að vernda störf eins og frekast er kostur en jafnframt að ráðast í nokkra fjárfestingu og viðhaldsframkvæmdir þrátt fyrir að svigrúm til fjárfestinga sé takmarkað þar sem afskriftir stofnfjárhluta í fyrrum Sparisjóði Húnaþings og Stranda á þessu ári og hinu síðasta hafa verulega neikvæð áhrif.

Í fjárhagsáætlun ársins 2011 kemur fram að ráðist verður í sérstakt átak vegna atvinnu,upplýsinga og ferðamála en meðal framkvæmda ársins 2011 má nefna endurbætur á knattspyrnuvelli í Kirkjuhvammi, framkvæmdir á útivistarsvæðum, endurbætur og tækjakaup í þreksal, viðhald gatna og gangstétta svo og almennt viðhald á fasteignum sveitarfélagsins.

Fjárhagsáætlun 2011 gerir ráð fyrir að heildarskatttekjur nemi alls 605,3 millj. kr. samanborið við 597,5 millj. kr. í útkomuspá fyrir árið 2010. Álagningarhlutfall útsvars verður óbreytt 13,28% en með fyrirvara um að nauðsynlegar lagabreytingar nái fram að ganga á Alþingi um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Nái þær fram að ganga hækkar útsvarshlutfall um 1,20 prósentustig og verður álagningarhlutfallið þá 14,48% á árinu 2011 en hlutur ríkisins í skatthlutfalli lækkar samsvarandi á móti. Gert er ráð fyrir að útsvarstekjur nemi alls kr. 280,8 millj kr á árinu 2011 samanborið við 276 millj. kr. í útkomuspá ársins 2010.

Þrátt fyrir umtalsverðar verðlagshækkanir á árinu er breytingum á þjónustugjaldskrám stillt mjög í hóf að mati sveitarstjórnar í fjárhagsáætlun ársins 2011 en þjónustugjaldskrár munu hækka almennt um 5-10% frá fyrra ári.

Áætlað er að fráveita og hitaveita skili rekstarafgangi en að önnur B-hluta fyrirtæki séu rekin með halla. Rekstarniðurstaða samstæðu fyrir fjármagnsliði er neikvæð um 11,7 millj. kr. en heildarniðurstaða samstæðunnar er neikvæð um 59,7 millj. kr. 

  • Tekjur A-hluta eru áætlaðar 807,5 millj. kr. en gjöld 827,3 millj. kr.  
  • Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 925 millj. kr. en gjöld 936,8 millj. kr.
  • Fjármagnsliðir eru áætlaðir 47,9 millj. kr.
  • Handbært fé frá rekstri til greiðslu afborgana lána og til fjárfestinga er kr. 32,4 millj. kr.
  • Gert er ráð fyrir nýjum lántökum að upphæð kr. 50,0 millj. kr. og afborgunum lána að
  • fjárhæð 68,8 millj. kr.
  • Handbært fé í árslok er áætlað  3,2 millj. kr.

 

Fulltrúar B-listans sátu hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar og létu bóka eftirfarandi:

 Við undirrituð sitjum hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2011. Vísum til bókunar okkar við fyrri umræðu varðandi  akstur á íþróttaæfingar og tónlistarskóla utan daglegs starfstíma grunnskóla.  Þá skal það jafnframt tekið fram að við hefðum kosið að sveitarfélagið beitti sér fyrir atvinnuskapandi uppbyggingu í ríkara mæli. Eignfærð fjárfesting  2009 var 55 millj., 2010 áætluð 48 millj. , nú er áætlað 21,5 millj. 2011. Á samdráttartímum er mikilvægt að hið opinbera/sveitarfélagið örvi atvinnulífið svo sem kostur er, og skapa þannig veltu í samfélaginu og útsvarstekjur til sveitarfélagsins. Fulltrúar B-lista Framsóknarflokks munu hér eftir sem hingað til sýna ábyrgð er varðar fjármál sveitarfélagsins. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, hefur staðfest góða stöðu Húnaþings vestra í lok árs 2009.  

Elín R. Líndal,  Ragnar Smári Helgason.

Fleiri fréttir