Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps fyrir 2014 samþykkt

Hreppsnefnd Húnavatnshrepps samþykkti á fundi sínum á mánudaginn fjárhagsáætlun fyrir árið 2015. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðunnar um 10,5 milljónir króna.

Fram kemur í fundargerðinni að góð samvinna hafi verið milli meirihluta og minnihluta varðandi áherslur við fjárhagsáætlunargerðina.

Tekjur A og B hluta eru áætlaðar um 400 milljónir króna en rekstrargjöld um 387 milljónir.Hagnaður fyrir fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld er áætlaður um 13 milljónir og gert er ráð fyrir að skuldir samstæðunnar lækki áfram. Veltufé frá rekstri er áætlað um 24 milljónir eða nálægt 6 prósentum.

Talsverðum fjármunum verður veitt til viðhalds. Stærsta einstaka framkvæmdaverkefni ársins 2015 verða endurbætur á Húnavallaskóla að fjárhæð 12,9 milljónir króna. Má þar helst nefna að reiknað er með að gera endurbætur á sundlaug fyrir 7,7 milljónir króna og gluggaskipti fyrir 4,2 milljónir. Varlega er farið í breytingar á gjaldskrám og mun gjaldskrá leikskóla hækkuð óverulega á milli ára.

Fleiri fréttir