Fjölbreytt verkefni á Sóknarbrautarnámskeiði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands
Fimmtudaginn 9. desember lauk námskeiðinu Sóknarbraut í Húnavatnssýslum þar sem þátttakendur kynntu afrakstur vinnu sinnar fyrir námskeiðshópnum og nokkrum gestum. Námskeiðið var haldið á tveimur stöðum þetta misserið, á Blönduósi og á Hvammstanga.
Forsenda fyrir þátttöku í verkefninu Sóknarbraut er sú að viðkomandi hafi viðskiptahugmynd sem hann/hún vill vinna að og tengja saman við námsefni námskeiðsins en tilgangur námskeiðsins er að brúa bilið á milli hugmyndar að fyrirtæki og markvissrar framkvæmdar. Þátttakendum í verkefninu stendur til boða margvíslegur stuðningur á meðan námskeiðinu stendur sem og að því loknu frá Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og SSNV.
Alls sátu 15 þátttakendur námskeiðið þetta misserið en námskeiðið er alls 40 stundir. Tíu þátttakendur útskrifuðust af námskeiðinu með kynningu á verkefni sínu og bættast þar með í hóp rúmlega 150 aðila sem lokið hafa þátt í námskeiðinu vítt og breitt um landið síðan 2005. Mun fleiri hafa nýtt sér aðra þætti námskeiðsins og þá þjónustu sem er í boði hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Viðskiptahugmyndir þátttakendanna sem luku námskeiðinu voru af fjölbreyttum toga og hafa nokkrir þátttakendanna stofnað fyrirtæki nú þegar en aðrir skoðuðu ný tækifæri til atvinnusköpunar í sinni heimabyggð.
Framkvæmd Sóknarbrautarnámskeiðsins vorið 2010 var unnin í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta þátttakenda á námskeiðinu Sóknarbraut.
/Selma Dögg