Fjöldi fólks sótti Sveitasælu
Landbúnaðarsýningin og bændahátíðin Sveitasæla 2012 var haldin í reiðhöllinni Svaðastaðir á Sauðárkróki um helgina og að venju var margt í boði. Að sögn Karls Jónssonar hjá Markvert má áætla að gestir hafi verið um 2000 talsins sem sóttu sýninguna.
Karl segir að það hafi verið vaskur hópur sem stóð að baki sýningarinnar: „Afar virkir fulltrúar búgreinafélaganna og sveitarfélagsins auk fulltrúa eigenda reiðhallarinnar. Þessi hópur var samhentur frá upphafi og staðráðinn í að búa til góða sýningu.“
Hversu margir sýnendur voru?
- Það voru þrír vélasalar með sýningu utandyra, ásamt því að skagfirskir bændur sýndu hluta af sínum vélum og tækjum. Inni voru 13 aðilar með kynningarbása, auk þess sem handverksmarkaðurinn stóð saman af einum 13 seljendum. Þá var kynning á ýmsu eins og ullarvinnslu, skyrgerð, smjörstrokkun og fleiru þannig að allir gátu fengið eitthvað áhugavert að skoða. Það hafði vissulega áhrif á okkar sýningu að skömmu áður var landbúnaðarsýning í Eyjafirðinum, en áhrifin af því voru þó minni en maður óttaðist. Vélasalar virðast margir virða það við okkur hér að okkar sýning er haldin árlega og þeir vildu ekki sleppa úr ári.
Einhver hugmynd um fjölda gesta?
- Ég er nú enginn Geir Jón, en kunnugir sögðu að það hafi verið svipaður fjöldi gesta og í fyrra og þá voru þeir áætlaðir tæplega 2000. Tvisvar á opnunartíma sýningarinnar var nánast maður við mann út um alla höll og tímabili þurfti fólk að leggja við alla leið við innkeyrsluna að reiðhöllinni. Þannig að við erum ljómandi sátt með aðsóknina.
Eitthvað sem vakti meiri athygli en annað?
- Ekki sem hönd er á festandi, þarna var um mjög skemmtilegar og áhugaverðar kynningar að ræða, en ég held að dýragarðurinn og allt sem snýr að dýrunum sé alltaf mjög vinsælt, krakkarnir fljótir að leiða pabba og mömmu í áttina að dýrunum.
Hvernig var mæting um kvöldið?
- Það var ágæt mæting á kvöldvökuna og stemmningin góð. Gísli Einars fór náttúrlega á kostum eins og honum einum er lagið og bændafitnessið var stórskemmtilegt og ótrúlegt að menn hafi ekki legið óvígir eftir það eins og tilþrifin voru. Sigvaldi á Löngumýri opnaði kvöldvökuna með flottu söngatriði og svo komu þau fram Sunna, Sóla og Daníel og fluttu nokkur lög. Það var svo trúbadorinn Rúnar F sem lokaði kvöldvökunni hjá okkur í góðu stuði þannig að það fóru allir heim með bros á vör.
Myndir: Markvert ehf.
.
