Fjöldi manns á heilsugæsluna
Þann 25. október sl. bauð Heilsugæslustöðin á Sauðárkróki öllum sem vildu í heimsókn í tilefni af 25 ára starfsafmæli stöðvarinnar og voru margir sem þáðu boðið.
Var gestum boðið upp á kaffi og kleinur um leið og húsakynnin voru skoðuð og einnig gafst fólki kostur á að láta mæla sig á ýmsan hátt. Mynduðust langar biðraðir fyrir framan þær stofur þar sem boðið var upp á blóðsykurs-, kolesterols- og blóðþrýstingsmælingu.
Í síðasta Feyki er skemmtilegt viðtal við Örn Ragnarsson yfirlækni heilsugæslunnar þar sem hann segir frá starfseminni og deilir áhyggjum sínum vegna fyrirsjáanlegs skort á heimilislæknum í landinu ásamt fleiru.
Á hæðinni fyrir ofan heilsugæsluna var haldið upp á annað afmæli sem færri vissu um en þar dvelur Ingibjörg Jónsdóttir frá Glæsibæ og bauð hún gestum í 95 ára afmæli sitt. Setustofan var þétt skipuð fólki sem gæddi sér á dýrindis kökum og hnallþórum og samglöddust afmælisbarninu. Óskar Feykir afmælisbörnunum til hamingju með tímamótin.