Fjölnet stefnir á stækkun
Tölvufyrirtækið Fjölnet á Sauðárkróki sem er eitt elsta internetþjónustufyrirtæki á Íslandi fyrirhugar að stækka hýsingarsal tölvugagna á næstunni. Fjölnet hefur einbeitt sér að fyrirtækjamarkaði en ætlar sér nú að leggja áherslu á einstaklingsmarkaðinn.
Sú nýbreytni hefur verið tekin upp hjá Fjölnetsmönnum að boðið verður upp á sjálfvirka afritun af heimilistölvunni í örugga geymslu en að sögn þeirra Fjölnetsmanna hafa þeir kynnst því í gegn um árin að tugir heimila hafa misst öll gögn úr tölvum sínum þar sem geymd eru fjölskyldumyndir og skjöl sem slæmt er að missa. Nú er verið að bjóða fólki að kynnast afrituninni endurgjaldslaust í mánuð og ætii fólk að nýta sér það boð.
Fjölnet er í samstarfi við Gagnaveitu Skagafjarðar við að ljóleiðaravæða Skagafjörð og segja þeir Pétur Ingi Björnsson og Gísli Sigurðsson hjá Fjölneti að hægt sé að tífalda hraðann miðað við venjulega ADSL tengingu og eru allskonar tilboð í gangi fyrir einstaklinga en það er stefna fyrirtækisins að vera ódýrastir þar. –Og það er líka mikill kostur fyrir fólk að þjónustuaðilar séu heimamenn.