Fjölsótt opnun þrátt fyrir úrhellisrigningu
Dagana 4. - 16. ágúst dvaldi hópur norrænna listamanna á Skagaströnd og unnu sameiginlega að verkefninu „Fram með ruslið“ en vinnustofunni lauk með opnun sýningar í Sundlaug Skagastrandar sl. föstudag og loks ráðstefnu í Fellsborg á laugardag. Að sögn Hrafnhildar Sigurðardóttur listakonu gekk opnunin mjög vel og var hún fjölsótt þrátt fyrir úrhellisrigningu sem hún segir hafa passað mjög vel við vatnsþemað.
Um er að ræða þriggja ára verkefni sem hófst í Veiholmen í Smøla, Noregi á síðasta ári, á Skagaströnd í ár og verður haldið á eynni Læsø í Danmörku á næsta ári.
„Af öllum listaverkunum þá vakti myndband Ninu Kleivan mesta athygli, en þar syndir stúlka í vaskafati umkringdu rusli - mjög í takt við vatns- og ruslþema sýningarinnar. Eins var „performans“ Janne Aas skemmtun fyrir bæði unga sem aldna og uppskar hún mikinn hlátur þegar hún hermdi ýmist eftir hvalahljóðum eða okkur að tala íslensku með -ur endingum á öllum norskum orðum og slatta af tilvitnunum í sænska kokkinn í „Muppet Show“,“ segir Hrafnhildur.
Frá opnuninni. Ljósm./Heidi Rognskog
Málþingið segir hún einnig hafa verið mjög skemmtilegt. Fyrst sagði Magnús bæjarstjóri frá menningarstefnu Skagastrandar fyrir hönd bæjarins. Svo tók Hrafnhildur við og sagði frá tilurð Ness en hún er stofnandi listamiðstöðvarinnar.
„Mjög fróðlegt var að sjá og heyra fyrirlestrana frá Noregi og Danmörku, en þau sögðu okkur frá hvað þau hafa verið að bardúsa til að draga að fólk og ferðamenn. Í sveitarfélaginu Smøla setja þau árlega upp leikrit í fornum anda, sem dregur að mörg þúsund ferðmenn. Það minnti mig á leikritið um Þórdísi spákonu sem sett var upp á Skagaströnd 2009, en Skagstrendingar gætu hæglega gert það að árlegum viðburði,“ útskýrir Hrafnhildur.
Eins segir hún hægt að tengja fyrirlesturinn frá Dönunum frá Læsø, en eyjan er undan ströndum Skagen - sem þýðir Skaginn. „Þar settust listamenn að fyrir um 100 árum síðan og nú er þar listasafn, listalíf, vinsælt að búa og blómstrandi ferðamennska. Ég sá því fyrir mér að Skagaströnd gæti orðið íslenska Skagen svona eftir nokkra áratugi,“ segir hún og brosir.
Sundlaug Skagastrandar, fyrir (neðan) og eftir (ofar). Ljósm./Heidi Rognskog
Selma Dögg Sigurjónsdóttir frá Nýsköpunarmiðstöðinni talaði um framtíðarsýn bæjarfélaga og mikilvægi þess að hafa jákvæða framtíðarsýn á bæinn sinn og tala hann upp frekar en niður.
Síðasti fyrirlesarinn var Andri Snær Magnason og vakti hann mikla athygli. „Hann var flugeldasýningin í enda pylsunnar (svo ég breyti nú málsháttum). Hann var alveg magnaður. Bæði fyndinn og grafalvarlegur í senn. Erlendu gestunum okkar fannst hann frábær með sýna umhverfissýn og vildu ólmir kaupa bókina hans,“ segir hún.
Hrafnhildur segir nánar frá verkefninu og hvernig það kom til að hún varð þátttakandi í því í Feyki sem kom út í dag.
