Fjórhjól fyrir Magga
Ungmennafélagið Neisti á Hofsósi ætlar halda utan um skemmtilegan og nauðsynlegan viðburð 14. ágúst. Viðburðurinn kallast: Hjólað um Skagafjörð-Áheitasöfnun.
Í fréttatilkynningu frá Neista segir: „Þann 14 ágúst ætlar okkar gamli félagi Magnús Jóhannesson, eða Maggi frá Brekkukoti eins og hann er oft kallaður,að hjóla 71. km leið frá Sauðárkróki til Varmahlíðar og þaðan um Blönduhlíð til Hofsóss, á þriggja hjóla raiserhjóli. Þetta ætlar hann að hjóla á handaflinu einu saman.Tilefnið er að safna fyrir rafmagnsfjórhjóli handa Magga en hann er lamaður fyrir neðan mitti eftir alvarlegt vinnuslys fyrir 14 árum síðan. Fjórhjólið mun auka lífsgæði Magga umtalsvert og gera honum kleift að þvælast um holt og hæðir. En hjól af þessu tagi kostar um 2,8 milljónir króna. Þeir sem vilja heita á Magga geta lagt inn á bankareikning í hans nafni 0123-15-221719 kt 1104683429
Við hvetjum sem flesta að taka þátt með því að hjóla með Magga einhvern spöl af leiðinni og að sjálfsögðu að heita á hann.”
Hér má bæta við að sjúkratryggingar Íslands sjá ekki ástæðu til styrkja Magnús í þessu máli og verður það að teljast miður.
Feykir óskar Magga góðs gengis á ferðalaginu og megi með því safnast digur sjóður. Neistafólki er þakkað fyrir framtakið. hmj