Fjórir hektarar lands hafa myndast á Eyrinni á 27 árum

Fyrr í vikunni lauk Norðurtak við að leggja grjótgarð út frá fjörunni neðan athafnasvæðis hafnarinnar á Sauðárkróki með það að markmiði að vinna frekara land. Frá árinu 1978 hafa myndast um 5,8 hektarar, eða 58 þúsund fermetrar, af landi á hafnarsvæðinu sem Gönguskarðsáin og norðanáttin skila að landi með hjálp sandfangara og grjótgarða.
Að sögn Dags Þórs Baldvinssonar, hafnarstjóra, voru byggðir stuttir grjótgarðar til norðausturs, út frá Eyrinni 1987, sem síðar hafa verið færðir fram í sjó eftir því sem land hefur dregist að þeim.
„Með þeim og sandfangaranum hefur mikið land verið myndað utan á Eyrina, hentugar byggingarlóðir fyrir starfsemi sem þarf nábýli við hafnarbakka. Malar- og sandburður inn á höfnina hefur minnkað eftir að þessir grjótgarðar voru gerðir og landbroti verið breytt í landvinning. Nú er verið að setja stutta grjótgarðinn á annan stað sem vonandi safnar meira landi en þar sem hann var áður. Síðan er mikilvægt að lengja núverandi sandfangara í framtíðinni,“ segir Dagur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.