Fjórtán kindur sóttar í Stakkfellið
feykir.is
Skagafjörður
31.01.2018
kl. 08.00

Þær voru fegnar heimkomunni þessar kindur sem Erla Lárusdóttir á Sauðárkróki heimti um helgina. Mynd: Hafdís Skúladóttir.
Á laugardaginn var farinn leiðangur til að sækja fé sem vitað var um í Staðarfjöllum í vestanverðum Skagafirði. Fóru nokkrir menn á sleðum og fundu 14 kindur í norðanverðu Stakkfellinu. Hafa þá 25 kindur verið færðar til byggða frá áramótum úr Vesturfjöllum.
Arnór Gunnarsson, þjónustufulltrúi landbúnaðarmála hjá Svf. Skagafirði fór fyrir hópnum og sagði hann að ágætlega hafi gengið að koma kindunum til byggða loks þegar þær þorðu út á ísilagða ána yfir á Hryggi. Til að koma hópnum yfir og niður í Tungu var sett hey á ísilagða ána og runnu þá kindurnar yfir.
Aðspurður segir Arnór að vitað sé um eina kind sem eftir er á afréttinni og verður hennar leitað við tækifæri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.