Fjörutíu ára samfelldum veðurathugunum á Bergstöðum lokið

Sigrún Aadnegard og Viðar Ágústsson taka veðrið í síðasta sinn. Mynd: Lee Ann Maginnis.
Sigrún Aadnegard og Viðar Ágústsson taka veðrið í síðasta sinn. Mynd: Lee Ann Maginnis.

Í gærmorgun kl. 9 lauk fjörutíu ára samfelldum veðurathugunum á Bergstöðum í Skagafirði. Það þykir nokkuð merkilegt að sama fólkið hafi sinnt veðurathugunum í svo langan tíma. Hjónin Sigrún Aadnegard og Viðar Ágústsson hafa sinnt veðurathugunum sjö sinnum á dag allt árið um kring.

,,Veðrið er tekið klukkan 6, 9, 12, 15, 18, 21 og á miðnætti,“ segir Viðar. Veðurævintýrið hófst fyrir fjörutíu árum fyrir tilviljun. ,,Það var maður sem hafði lofað sér í þetta en sagði svo nei og þá vorum við beðin um þetta. Veðurstöðin hafði verið niðri á Krók og hafði farið svolítið á milli manna,“ segir Sigrún. ,,Ef einhverstaðar voru vandræði var Sigrún sótt og beðin um að bjarga málunum, hún gerði það alltaf og hér erum við fjörutíu árum seinna,“ segir Viðar.

Veðurathuganirnar eru mjög ítarlegar, þar er meðal annars mældur hiti, úrkoma, vindátt, vindhraði, skyggni og hæð skýja. ,,Ég nota Mælifellshnjúkinn til að mæla hæð skýjanna, en hann er 1.140 metrar á hæð,“ útskýrir Viðar.  ,,Einnig þurfum við að setja inn heiti skýjanna,“ bætir Sigrún við. Mikil vinna liggur að baki veðurathugunum en einnig þarf að senda öll gögn til Veðurstofunnar. Það er ein bók fyrir hvern mánuð og má því reikna með að hjónin séu búin að fylla út um 480 bækur á þessum fjörtíu árum. ,,Við hreinskrifum í aðra bók og sendum hana til Veðurstofunnar, frumritin eru svo hér hjá okkur,“ útskýrir Viðar.

Hér áður fyrr hringdi Veðurstofan á Bergstaði sjö sinnum á sólarhring en öllum veðurathugunum á Norðurlandi vestra var safnað saman af starfsmönnum staðsettum í Brú í Hrútafirði. ,,Þau hringdu nú stundum og ráku á eftir okkur en það er mjög mikilvægt að taka veðrið sem næst réttum tíma. Núna gerum við þetta allt í gegnum tölvuna,“ segir Viðar.

Spurð um veðrið þessi fjörtuíu ár þá segja þau að veðrið hafi breyst þó nokkuð. ,,Það er töluvert minni snjór núna en áður. Veturnir hafa orðið betri en sumrin hafa jafnast nokkuð út,“ útskýrir Sigrún.

Veðurstöðin á Bergstöðum verður lögð niður en Veðurstofan mun áfram halda út vindmæli á Bergstöðum. ,,Það er mjög mikilvægt að mæla vindhraðann hér enda er þetta mikið rokrassgat og umferðin á þessu svæði mjög mikil,“ segir Viðar að lokum.

Síðasta veðurathugunin frá Bergstöðum:  Alskýjað, 3 m/s, 9 stiga hiti og skyggni 50 kílómetrar.

(Í Feyki, sem kom út í dag, mætti ætla að blindaþoka hefði verið á Bergstöðum þegar síðasta veðurathugunin fór fram þar sem í fréttina, um þau Sigrúnu og Viðar, vantaði 49950 metra upp á skyggnið sem taldist sem sagt vera ágætt. Í fréttinni stóð að skyggnið hafi verið 50 metrar en átti að vera 50 kílómetrar.)

/Lee Ann

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir