Flutningaskip Eimskips á Krókinn

Flutningaskipið Blikur í Sauðárkrókshöfn í síðustu viku. Mynd: PF.
Flutningaskipið Blikur í Sauðárkrókshöfn í síðustu viku. Mynd: PF.

Eimskip hefur hafið strandsiglingar á ný til Sauðárkrókshafnar og kom flutningaskipið  Blikur í síðustu viku. Um er að ræða tilraunasiglingar sem verða hálfsmánaðarlega að minnsta kosti til haustsins og framhaldið mun svo ráðast af því hvernig magnið þróast.

Matthías Matthíasson framkvæmdastjóri Flutningasviðs Eimskips segir að þrátt fyrir að áætlun segi að fraktskip komi hálfsmánaðarlega, gæti veður haft áhrif á viðkomur á Sauðárkrók þar sem höfnin getur verið erfið við vissar aðstæður. Aðallega er verið að flytja sjávarafurðir og steinull til útflutnings.

Aðspurður um hvort aukning sé í strandflutningum segir Matthías þær hafa verið nokkuð stöðugar frá því að þær hófust á ný. „Strandsiglingarnar hafa fengið góðar viðtökur enda umtalsverður sparnaður fyrir viðskiptavini Eimskips að fá beina tengingu við sín byggðarlög í samanburði við þann kostnað sem landleiðin kostar. Þá eru strandsiglingar einnig mun umhverfisvænni og létta á álaginu af þjóðvegum landsins.“ Hann segir stöðugt og vaxandi magn og góðar undirtektir viðskiptavina hafa þessi áhrif og í sumum höfnum er aukning á beinum innflutningi en þó er aðallega um að ræða útflutning sjávarafurða. Stóriðja styður einnig vel við strandsiglingar.

Aðspurður um hvort hann vildi koma einhverju á framfæri segir Matthías að það væri þá einna helst að unnið yrði frekar að uppbyggingu innviða úti á landi s.s viðgerð og stækkun hafnarmannvirkja. "Einnig væntum við áframhaldandi jákvæðra viðbragða frá viðskiptavinum og velvildar gagnvart strandsiglingum. Við erum bjartsýn á framhald þessara siglinga,“ sagði Matthías Matthíasson framkvæmdastjóri Flutningasviðs Eimskips.

Fleiri fréttir