FNV fær viðurkenningu fyrir Evrópuverkefni
Dagana 1.-3. október s.l. fór fram árleg ráðstefna á vegum Evrópusambandsins sem kallast SME Assembly. Samkoman var að þessu sinni haldin í Napólí á Ítalíu. Á þessar samkomu voru samankomnir um 800 þátttakendur víða að úr Evrópu þar sem megin þemað var nýsköpun og frumkvöðlaverkefni af ýmsu tagi. Verkefni sem FNV stendur fyrir, Nám í plastiðnum, hlaut viðurkenningu fyrir tilnefningu á hátíðinni.
Ráðstefna þessi er fyrst og fremst verðlaunahátíð sem kallast EEPA European Enterprise Promotion Awards, en hún hefur verð haldin síðan 2006 og hafa 2.800 verkefni verið tilnefnd frá upphafi. Meginmarkmið þessarar hátíðar er að viðurkenna vel heppnuð verkefni sem stuðla að atvinnusköpun og frumkvöðlastarfsemi. Þá fer þar fram kynning á vel heppnuðum verkefnum auk þess sem vakin er athygli á mikilvægi frumkvöðlastarfsemi í samfélaginu og væntanlegir frumkvöðlar eru hvattir til dáða. Þess má geta að forseti Ítalíu Giorgio Napolitano heiðraði samkomuna með nærveru sinni fyrir hádegi fimmtudaginn 2. október.
Keppnin fer þannig fram að í hverju landi um sig er keppt um tilnefningu til þessara verðlauna í fimm flokkum. Ísland tilnefndi í fyrsta skipti tvö verkefni í keppnina. Annað þeirra er á vegum Félags kennara í nýsköpunar og frumkvöðlamennt, í flokknum Promoting the Entepreneurial Spirit. Í þessum flokki voru 16 verkefni tilnefnd. Verkefnið sem var tilnefnt nær utanum námskeiðhald félagsins.
En um langt skeið hafa stjórnarmeðlimir í félaginu haldið úti öflugum og metnaðarfullum námskeiðum í frumkvöðla- og nýsköpunarmennt fyrir kennara á öllu skólastigum. Þetta námskeiðahald hefur skilað sér í aukinn áherslu á þessu mikilvæga námi í skólakerfinu og á síðustu árum hefur félagið eflst og er nú byggt á þessu starfi á alþjóðlegum vettvangi.
Hitt verkefnið var í flokknum Investing in Entrepreneurial Skills. Í þessu flokki voru átta verkefni tilnefnd. Það verkefni er á vegum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og nefnist Plastic Processing Education eða Nám í plastiðnum en það verkefni var styrkt af Leonardo hluta Menntaáætlunar Evrópusambandsins og stóð yfir á árunum 2011-2013. Meginmarkmið þess er að koma á fót námi í plastiðnum og plastbátasmíði með sérstaka áherslu á trefjaplast af ýmsu tagi. Hægt er að sjá myndir frá verðlaunaathöfninni á þessari slóð.
Hvorugt verkefnanna komst í verðlaunasæti en þau fengu hvort um sig viðurkenningu við hátíðlega athöfn fyrir tilnefninguna, en það er mikill heiður að komast svo langt. Hannes Ottósson, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd Félags kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og Þorkell V. Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari, fyrir hönd FNV. Óhætt er að segja að verkefnin sem verðlaunuð voru hafi verið vel að þeim komin. Frá þessu er sagt á vef FNV.