„Follubollur“ nýjasti íslenski skyndibitinn

Litla Kjötbolluhátíðin verður haldin þann 7. júlí næstkomandi á Hólum í Hjaltadal á veitingastaðnum Undir Byrðunni. Er hátíðin afrakstur nemenda í áfanganum Matur og menning í sumarnámi Háskólans á Hólum. Á hátíðinni verða Follubollur, nýjasti alíslenski skyndibitinn kynntur.

Öflugt starf er unnið við Háskólann á Hólum í Hjaltadal í sumar og sökum Covid-19 og sækir fjöldi fólks sumarnám við skólann. Matur og menning  er einn áfanganna sem kenndur er í sumar og er hluti áfangans að halda matartengdan viðburð. Úr varð Litla Kjötbolluhátíðin sem haldin næstkomandi þriðjudag.

Fram kemur á viðburðarsíðu hátíðarinnar á facebook að nemendur hafi ákveðið að útbúa ódýran og góðan skyndibita úr íslensku hráefni og kynna réttinn á kjötbolluhátíðinni. Úr varð réttur þar sem aðal hráefnið eru bollur úr folaldakjöti ásamt byggi, kartöflumús og öðru meðlæti. Hefur þessi nýi og holli skyndibiti fengið nafnið Follubollur.

Hátíðin verður frá kl. 18:00 – 20:00 og gefst þá gestum og gangandi tækifæri á að smakka þennan  nýja og spennandi skyndibita. Rétturinn mun kostar litlar 750.- kr. en því miður er enginn posi á staðnum. Allur ágóði sölunnar mun renna til góðra málefna.
/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir