Fornbílnum rennt úr hlaði

Pökkun safnkosts Byggðasafns Skagfirðinga í Minjahúsinu á Sauðárkróki fer fram um þessar mundir fyrir flutning safnsins. Á föstudaginn var sótti Björn Sverrisson Ford A bifreið sína, árgerð 1930, sem hefur verið til sýnis í Minjahúsinu um árabil. Honum færður blómvöndur og innilegar þakkir fyrir lánið á glæsibifreiðinni og gott samstarf í gegnum árin.
Björn fékk bílinn suður á Álftanesi á sínum tíma, þá allan sundurtekinn og fór mikil vinna í að gera hann upp. Hann sagðist hafa lagt sig fram við að gera bílinn upp eins mikið „orginal“ og mögulegt væri í viðtali við Feyki árið 1990, og að ekkert vandamál hafi verið að fá varahluti. „Ég fékk pöntunarlista hjá Fordverksmiðjunum og hægt er panta eftir honum alla hluti. Þeir sérsmíða allt í Bandaríkjunum og ég fékk meira að segja áklæðið á sætin alveg eins og það var. Það má segja að bíllinn sé alveg eins og þegar hann kom frá verksmiðjunum í upphafi,“ sagði Björn í viðtalinu.
Glæsibifreiðin fer aftur á verkstæði Björns eftir að hafa skreytt torgið við gömlu verkstæðin í Minjahúsinu undanfarin ár. Þau verða tekin niður í sumar, auk þess sem safngripum í geymslu Byggðasafnsins verður pakkað og þeir undirbúnir fyrir flutning. Eins og áður hefur verið greint frá þá var gerður samningur við Kaupfélag Skagfirðinga um makaskipti á Minjahúsinu við Aðalgötu 16b og Aðalgötu 21-21a, þ.e. Gamla samlaginu að fyrrverandi Iðju meðtalinni og Gránu, með það í huga að nota húsnæðið undir starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga.
Um leið og Björn ók bílnum á brott fór seinni lánsgripurinn sem safnið hafði haft í láni og sett mikinn svip á sýningarnar í Minjahúsinu. Fyrir mánuði fór annar björn úr húsi þegar starfsmenn Náttúrfræðistofnunar Íslands sóttu hvítabjörninn sem safnið hafði haft í láni frá þeim. /BÞ