Fornleifauppgreftri í Keflavík að ljúka

Fornleifauppgreftri í kirkjugarðinum við Keflavík í Hegranesi er nú rétt að ljúka. Frá því er sagt í Morgunblaðinu í gær en þetta er þriðja sumarð sem rannsóknir fara þar fram og hlaut fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga fjögurra milljón króna styrk úr fornminjasjóði á árinu vegna verksins. 49 grafir hafa fundist, auk kirkju, smiðju og upphækkaðrar stéttar sem hefur legið milli kirkju og bæjar.
Í viðtali við Morgunblaðið segir Guðný Zoëga, fornleifafræðingur að þessi rannsókn hafi verið mjög árangursrík og margt óvænt komið fram. Uppgröfturinn í Keflavík er hluti af Skagfirsku kirkju- og byggðarannsókninni sem hófst árið 2015 og er samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga og UMASS háskóla í Boston í Bandaríkjunum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna tengsl landnáms, byggðaþróunar og kirkjusöögu í Hegranesi.
Kirkjugarðurinn í Keflavík fannst fyrir fimm árum síðan þegar starfsmenn RARIK unnu að plægingu jarðstrengs í túninu. Fjöldi grafa hefur fundist og er helmingur þeirra grafir ungbarna sem ekki náðu eins árs aldri. Guðný segir að tennur og bein gefi miklar vísbendingar um líf fólks og af þeim megi ráða að almennt hafi lífsskilyrði fólks verið vel viðunandi þótt stundum hafi samfélagið verið nærri hungurmörkum.
Rannsóknirnar benda til þess að jarðsett hafi verið í heimakirkjugörðunum frá því um árið 1000 og fram yfir 1100 þegar farið var að jarðsetja í formlegum kirkjugörðum. Talið er að heimakirkjugarðar í Skagafirði frá fyrri öldum séu um 130 og hafa 15 þeirra verið rannsakaðir.