Fóru útaf í Blönduhlíðinni

Aðfaranótt sl. laugardags fór bíll út af veginum í Blönduhlíð í Skagafirði með fjórum farþegum. Allir sluppu þeir nánast ómeiddir en bíllinn gjöreyðilagðist. Ágúst Friðjónsson, ökumaður bílsins sagði í viðtali við vísi.is að þeir félagarnir höfðu verið rosalega heppnir að ekki hafi farið verr.

Bíllinn fór út af veginum og kastaðist til eftir að Ágúst hafði dottað undir stýri, en bíllinn var í eigu vinar hans og eyðilagðist. Í samtali við vísi.is segir Ágúst að hann hafi verið farinn að finna fyrir þreytu og búinn að stoppa einu sinni á leiðinni til að fá sér frískt loft og koma blóðinu á hreyfingu. Hugmyndin hafi svo verið að stoppa aftur í Varmahlíð.

-Við vorum um tíu til tuttugu kílómetra frá Varmahlíð þegar ég dottaði. Við komum að beygju en bíllinn fór bara beint áfram. Ég vaknaði við að vinur minn sem sat í farþegasætinu kallaði nafnið mitt. Þá var það orðið of seint. Bíllinn fór beint í kannt á skurði sem var þarna við veginn. Þaðan kastaðist hann hátt upp í loftið,  yfir grindverk sem þarna var og snerist í loftinu. Við lentum svo, sem betur fer, á hjólunum. Þetta hefði getað farið svo miklu verr, sagði Ágúst í samtalinu við Vísi.is.

Félagarnir fjórir voru allir í belti og telja að það hafi bjargað þeim. Einn þeirra braut tennur og bein í andliti og annar fékk skurð, en annars hafi þeir sloppið við meiriháttar meiðsli.

Viðtalið við Ágúst má lesa í heild sinni hér. Þar má einnig sjá ellefu ráð frá Þórhildi Elínardóttur, upplýsingafulltrúa Samgöngustofu, til þess að koma í veg fyrir að dotta undir stýri.

Fleiri fréttir